top of page

Safnarhúsið: MÁLÞING UM BRAUTRYÐJANDASTARF BJÖRNS TH. BJÖRNSSONAR

508A4884.JPG

föstudagur, 7. október 2022

Safnarhúsið: MÁLÞING UM BRAUTRYÐJANDASTARF BJÖRNS TH. BJÖRNSSONAR

MÁLÞING UM BRAUTRYÐJANDASTARF BJÖRNS TH. BJÖRNSSONAR
Safnahúsið, laugardaginn, 8. október kl. 13:00-15:00.
Aðgangur að málþinginu er ókeypis og öllum opinn.

Í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli Björns Th. Björnssonar í ár efnir Listfræðafélag Íslands til málþings þann 8. október n.k. kl. 13:00-15:00 í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Á málþinginu verður vakin athygli á brautryðjandastarfi Björns á sviði listfræði og spurt um arfleið hans. Björn miðlaði þekkingu sinni á listasögunni með greinarskrifum, kennslu og gerð útvarps- og sjónvarpsþátta. Hann stundaði rannsóknir á íslenskri listasögu og lagði grunn að ritun sögu nútímalistar á Íslandi. Björn er jafnframt höfundur fjölda sögulegra skáldsagna.
Málþingið hefst með inngangserindi Auðar Övu Ólafsdóttur rithöfundar, listfræðings og fyrrum samstarfsmanns Björns. Aðrir fyrirlesarar málþingsins eru Hlynur Helgason, dósent í listfræði við Háskóla Íslands, sem fjallar um listfræðirannsóknir Björns; Guðni Tómasson, listfræðingur og dagskrárgerðarmaður á RÚV, sem ræðir um fjölmiðlamanninn; Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og ritstjóri, kynnir ritstörf Björns; og Margrét Elísabet Ólafsdóttir, prófessor við Listaháskóla Íslands og dósent við Háskólann á Akureyri, mun fjallar um kennslustörf hans í listasögu.
Fundarstjóri er Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, listfræðingur og stjórnarmeðlimur Listfræðafélags Íslands. Viðburðurinn fer fram á íslensku en aðgangur að málþinginu er ókeypis og öllum opinn. Að loknum erindum verður boðið upp á léttar veitingar.


Ferill Björns Th. Björnssonar:
Björn Th. Björnsson fæddist 3. september 1922. Hann var stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1943, og nam listasögu við Edinborgarháskóla (1943-1944), Lundúnaháskóla (1944-1946) og Kaupmannahafnarháskóla (1946-1949). Eftir heimkomuna til Íslands kenndi hann listasögu um áratugaskeið, fyrst við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Kennaraskóla Íslands, og síðar einnig við Háskóla Íslands.
Björn var afkastamikill rithöfundur og fræðimaður. Eftir hann liggja fjölmörg ritverk um íslenska listasögu og listamenn, skáldsögur og heimildarskáldsögur, endurminningar, sagnaþættir, þjóðlegur fróðleikur, leikrit og þýðingar. Lykilrit hans á sviði listasögu er Íslensk myndlist á 19. og 20. öld: drög að sögulegu yfirliti sem kom í tveimur bindum, hið fyrra árið 1964 og hið seinna 1973. Björn var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir fræði- og ritstörf árið 1994. Hann lést 25. ágúst 2007.


Stjórn Listfræðafélags Íslands

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page