top of page

Sýningaropnun Tolla "Sjóndeildarhringur í óreiðu" í Þulu

508A4884.JPG

fimmtudagur, 17. ágúst 2023

Sýningaropnun Tolla "Sjóndeildarhringur í óreiðu" í Þulu

Sýning Tolla Morthens, Sjóndeildarhringur í óreiðu, opnar í Þulu 19.ágúst (Menningarnótt) klukkan 17:00 og stendur til 10.september.

Þessi sýning verður með öðrum áherslum en oft áður hefur verið hjá listamanninum. Í Sjóndeildarhringur í óreiðu hverfur hann aftur til fyrri abstrakt ára sem hann byggir landslagsverk sín á og kannar svo uppbyggingu langdslagsmálverkanna og misjafnar túlkanir og endurtekningar sama mótífs.

Birta Guðjónsdóttir, kjúrator, skrifaði um listamanninn og sýninguna:

"Í litríku málverki sínu hefur myndlistarmaðurinn Tolli (Þorlákur Kristinsson) um fjögurra áratuga skeið fengist við lífsins hræringar, ekki síst eins og þær birtast okkur í náttúrunni, í litbrigðum jarðar en einnig í litbrigðum okkar eigin innri náttúru og þeim fínlegu víbrasjónum sem eiga sér stað í líkamanum og skapa mismunandi tíðni lita og tóna, sem eiga sér samsvaranir í náttúrulegu umhverfi okkar.
List Tolla á sér grunn í tjáningarmiklu Nýja málverki 9. áratugarins og gætir þeirra áhrifa enn að hluta í hráleika og hraðri abstrakt málun á stóra striga, þar sem hreyfing listamannsins við sköpunina á þátt í að magna upp orku sem skilar sér út frá myndfletinum.

Einn þráður í list Tolla er landslag, sem hann málar út frá eigin upplifunum af þeirri andagift sem göngur og dvöl í fjallendi á heimaslóðum veitir honum.

Á sýningunni eiga tveir staðir á Íslandi sérstakan sess sem viðfangsefni málverksins, annarsvegar hið tignarlega fjall Lómagnúpur og hinsvegar víðernin að Fjallabaki. Báðir hafa staðirnir frelsistilfinningu víðáttunnar og litadýrð sem aðdráttarafl og hafa þeir í gegnum tíðina verið yrkisefni margra annarra listamanna og skálda.

Á hátindi Lómagnúps má á góðum degi sjá yfir Skeiðarársand til Öræfajökuls og jafnvel yfir Grímsvötn og Vatnajökul. Og víðáttan að Fjallabaki fyllir lungu ferðalangsins af tæru fjallalofti. Við sjóndeildarhring í fjarska mætast himinn og jörð.

Hér er okkur boðið í huglægt ferðalag. Við virðum fyrir okkur þann bratta sem lífsins leið setur okkur hverju og einu að glíma við. Við sjáum hinn háa klett fyrir okkur sem síbreytilegt form og virðum fyrir okkur þá litríku víðáttu sem glíman uppávið veitir okkur, óreiðuna og ljósbrotin sem augað nemur á mismunandi hátt eftir því hvert sjónarhornið er.

Við erum minnt á að tengslin milli skynhrifa, svo sem upplifunar af ilmi, hljóðum, veðurfari, litum og formum, sem skynfærin nema í óbeislaðri náttúrunni og við köllum náttúruupplifun, eru af fagurfræðilegum toga. Þau endurspegla reynsluheim hvers og eins, eiginleika svo sem athyglisgáfu, forvitni og ímyndunarafl er breytast og eflast með auknum þroska.

Landslagstengdu verkin bindast hér abstraktverkum sem eru lausari að formi en öll eru verk sýningarinnar ný og nýleg. Litadýrð, kraftur hinna stóru pensilfara og ljósmagn myndflatarins er bindiefnið, sú óreiða sem andrúmsloft náttúruupplifunarinnar blæs ferðalangi í brjóst í formleysunni og er handan orða og ákveðinna staðsetninga.

Litaflaumur einkennir verk Tolla, þau eru einskonar litabað, kraftmikill litafoss sem okkur er boðið að stíga undir og inn í. Þessi litafoss umlykur okkur, hann umfaðmar okkur og í honum skapast aukið andrými í líkamsverund okkar. Þegar stigið er út úr litafossinum halda litirnir áfram að hafa áhrif, þeir eru heilandi. Margbreytileiki lita hefur haft veruleg og verufræðileg áhrif á mannsandann í gegnum aldirnar og áhrif lita, sem eru í grunninn ljósbrot í náttúrunni skynjaðir eru í gegnum sjónhimnuna og hafa lífeðlisfræðileg áhrif á okkur. Að beisla slík ljósbrot með málningu á færanlegan, tvívíðan flöt innandyra er galdur aldanna og sjónarhornið, upplifunin heldur áfram að vera okkar eigin.

Úr myndunum skín nánast ljós. Tærleiki litanna og andstæður þeirra leika á augað. Lómagnúpur er hér orðinn Ljómagnúpur sem sólin skín á að sumri og laðar okkur til sín.
Og við öndum að okkur litum og frá okkur streymir gleði. "

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn

SAMBAND
ÍSLENSKRA
MYNDLISTARMANNA

Hafnarstræti 16, 101 Reykjavík, Ísland

Skrifstofan er opin virka daga frá kl 12 -16

Sími/ Tel.: +354 551 1346
Email: sim@sim.is

Kt. 551283-0709

Samfélagsmiðlar

  • Facebook
  • Instagram
logo_white_edited.png

© Samband íslenskra myndlistarmanna, 2024

bottom of page