top of page

Sýningaropnun - D49 Helena Margrét Jónsdóttir: Alveg eins og alvöru

508A4884.JPG

þriðjudagur, 22. ágúst 2023

Sýningaropnun - D49 Helena Margrét Jónsdóttir: Alveg eins og alvöru

Verið velkomin á opnun sýningar Helenu Margrétar Jónsdóttur, Alveg eins og alvöru, í D-sal Listasafns Reykjavíkur Hafnarhúsi, fimmtudag 24. ágúst kl. 20.00.

Helena Margrét vinnur með sígilda eiginleika málverksins til að líkja eftir hinum sýnilega veruleika. Hugmyndir hennar birtast í einskonar töfraraunsæi á striga þar sem hún málar fyrirbæri af mikilli nákvæmni. Viðfangsefnin finnur hún ýmist í umhverfinu eða í hinum stafræna heimi. Að auki eru þau viðfangsefni sem hún fangar oftar en ekki eftirlíking úr gerviefni af einhverju öðru. Þannig verður til tvöföld eftirlíking – fyrst í fyrirmyndinni og svo í eftirmyndinni.

Það stafar engin ógn af gervikönguló og engin ilmur berst af nælonblómum.

Helena Margrét fjallar um blendnar tilfinningar og flókið samspil þess að þrá eitthvað og hafa á því óbeit. Köngulóin og vefur hennar er endurtekið þema í verkum Helenu Margrétar en köngulóin vísar í óbeit listamannsins á dýrinu. Til að vinna á þessari óbeit málar Helena Margrét köngulóna ýmist í gervi tuskudýrs, eyrnalokks og jafnvel hárklemmu sem gerir nálægð hennar þægilegri. Þó er fyrirmyndin aldrei langt undan og vekur upp hroll og jafnvel andstyggð. Drykkirnir tákna aftur á móti eitthvað girnilegt og mynda andstæðu við hin neikvæðu viðbrögð en falsað eðli hlutanna dempar áhrif þeirra allra.

Helena Margrét tengir þessi manngerðu gerviefni við ótta, langanir, kvíða og þrár. Efni og áferðir sem líkja eftir lífi, en munu ennþá standa óbreytt löngu eftir okkar tíma.

Helena Margrét Jónsdóttir (f. 1996) útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2019 eftir að hafa stundað nám í myndlist við Konunglega Listaháskólann í Haag í Hollandi og Myndlistarskólann í Reykjavík. Nýlegar einkasýningar Helenu eru Liquida (2021) í Plan X Art Gallery í Mílanó og Þú getur ekki fest þig í þínum eigin vef (2022) í Ásmundarsal. Helena tók einnig þátt í samsýningunni Allt sem sýnist – Raunveruleiki á striga á Kjarvalsstöðum 2020.

Sýningaröðin í D-sal hóf göngu sína árið 2007 í Listasafni Reykjavíkur – Hafnahúsi. Hér er listamönnum sem hafa mótandi áhrif á íslenska myndlistarsenu boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni.

Sýningarstjóri: Björk Hrafnsdóttir

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page