Sýningaropnun í Listasafni Íslands: Fram fjörðinn, seint um haust
miðvikudagur, 17. maí 2023
Sýningaropnun í Listasafni Íslands: Fram fjörðinn, seint um haust
Sýningin Fram fjörðinn, seint um haust samanstendur af stórum vatnslitaverkum máluðum á síðustu tveimur árum þar sem lífríki Héðinsfjarðar seint um haust er aðalviðfangsefni listamannsins Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar. Undanfarin 17 ár hefur vaxandi hluti verka Sigtryggs átt uppruna sinn í Héðinsfirði, eyðifirði sem liggur á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar á Tröllaskaga, þar sem listamaðurinn hefur skrásett náttúruna í firðinum í gegnum athöfnina að mála.
Flóra fjarðarins endurspeglar jafnvægið sem ríkir í lítt snortnu landi en svæðið sem listamaðurinn vinnur með hefur verið í eyði í meira en öld. Frá því að listamaðurinn hóf að kanna svæðið hefur hann tekið eftir frávikum í veðri, flóru og fánu Héðinsfjarðar. Fiskigengd hefur orðið skrykkjótt og ítrekað hafa brostið á stórrigningar með flóðum um mitt sumar þar sem skriður falla og áin margfaldast í flóðum, brýtur gróðursælt landið, breytir um farveg og hrekur göngufisk til sjávar á ný.
Sigtryggur lítur á vinnuna í Héðinsfirði sem tilraun til þess að hlusta á náttúruna, leita frétta og miðla mikilvægum boðskap, en breytingum á lífríki fjarðarins hefur listamaðurinn fylgt eftir með sýningum þar sem náttúruváin er undirliggjandi viðfangsefni. Verkin á sýningunni Fram fjörðinn, seint um haust er afrakstur vinnu listamannsins í Héðinsfirði síðastliðin tvö ár og endurspeglar ástand mála í stærra samhengi þar sem einhvers konar haust ríkir og búast má við hörðum vetri.