Sýningaropnun í Gallerí Grásteini
fimmtudagur, 4. maí 2023
Sýningaropnun í Gallerí Grásteini
Fimtudaginn 4. maí kl. 16-18 opnar R. Benedikta sýninguna Undan Jökli í Gallerý Grásteini á Skólavörðustíg 4. Til sýnis verða verk sem myndlistarmaðurinn hefur unnið á síðustu tveimur árum með vín/eggtemperu eða “patine au vin” og náttúrulegum litarefnum sem hún hefur safnað víða, bæði hér á landi og á ferðum sínum um framandi slóðir. Yrkisefnið er að mestu hin stórfenglega náttúra Íslands og áhrif utanaðkomandi afla á hana. R. Benedikta reynir að fanga mikilleik jöklanna sem eru hér í dag en eru að dragast saman og hverfa. Hún heimsækir íshelli sem verður bráðnaður eftir nokkrar vikur og skoðar hvernig land birtist “undan jökli” þegar hann hopar. Þetta er síbreytileg fegurð sem vert er að reyna að fanga.
R. Benedikta útskrifaðist frá Myndlista- og Handíðaskóla Íslands 1987 og hefur unnið að list sinni síðan auk þess að kenna myndlist. Í dag kennir hún listgreinar í Menntaskólanum við Sund. Hún hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum og listamessum í nokkrum löndum. Hún hefur búið í Frakklandi og Lúxemborg og dvalið á gestavinnustofum bæði í Frakklandi og á Íslandi.
Þessa aðferð við að nota temperu og litarefni úr náttúrunni hefur R. Benedikta þróað síðan hún bjó í Suður-Frakklandi árið 2000 og svo enn frekar meðan hún dvaldi á gestavinnustofu á sömu slóðum 2005-2006. Askan kom síðan til sögunnar þegar Eyjafjallajökull gaus en þá bjó hún í Lúxemborg og var að vinna verk til að senda inn í CAL-Cercle Artistique de Luxembourg. Hún notar ösku sem gráa og svarta liti í verkum sínum. Þessi öskuverk komu henni á kortið og hún fékk inni á eftirsóttum listamessum í Lúxemborg, Frakklandi og Þýskalandi í kjölfarið.
Sýningin verður opin áfram kl. 10-18 alla daga til og með 2. júní.
Frekari upplýsingar á www.rbenedikta.com