top of page

Sýningaropnun: Sóley Ragnarsdóttir og Þór Vigfússon

508A4884.JPG

fimmtudagur, 11. apríl 2024

Sýningaropnun: Sóley Ragnarsdóttir og Þór Vigfússon

Verið velkomin á opnun tveggja einkasýninga í Gerðarsafni laugardaginn 13. apríl kl. 17:00. Hjartadrottning, sýning Sóleyjar Ragnarsdóttur og Tölur, staðir sýning Þórs Vigfússonar verða opnaðar samtímis. Heiðar Kári Rannversson er sýningarstjóri beggja sýninganna. 

Hjartadrottning | Sóley Ragnarsdóttir

Á sýningunni Hjartadrottning birtist áhorfendum heillandi hugar- og efnisheimur myndlistarkonunnar Sóleyjar Ragnarsdóttur. Ofurskrautleg málverk og skúlptúrar af ýmsum stærðum og gerðum, fagurlega málaðir veggfletir og sérhannað veggfóður auk sýningarborða með einstöku servíettusafni skapa hér eina heild svo úr verður malerísk innsetning.
Í verkum Sóleyjar má finna bæði femíníska og vistfræðilega fleti sem saman mynda marglaga höfundarverk. Í huga listakonunnar hverfist söfnun og sköpun þannig um arfleið, bæði í nútíð og framtíð, og hvernig við getum hlúið að hlutum og stöðum sem við tengist persónulegum böndum um ævina. En verk Sóleyjar eru líka viðbragð við þeim gríðarlegu mengandi áhrifum sem mannfólkið hefur á umhverfi sitt og náttúru, ekki síst á hafið og ströndina. Sýningin er tímanlegt ákall um að staldra við í samtímanum og horfa niður í sandinn –  og gleyma sér í smáatriðunum og skrautinu. Sýningarstjóri er Heiðar Kári Rannversson. 

Sóley Ragnarsdóttir (f. 1991) er dönsk-íslensk myndlistarkona búsett í Stenbjerg, Thy í Danmörku. Hún lauk meistaraprófi frá Städelschule í Frankfurt, Þýskalandi árið 2019 undir handleiðslu Amy Sillman, Monika Baer og Nikolas Gambaroff. Á síðustu árum hefur Sóley vakið verðskuldaða athygli á danska og alþjóðlega myndlistarsviðinu og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Þá hefur hún haldið nokkrar einkasýningar, m.a. Dot, dot, dot (2021) í Gallery Jean-Claude Maier, Frankfurt, Organizing Principles (2021) á O–Overgaden og Cherrystone (2022) í Formation Gallery, Kaupmannahöfn. Árið 2023 sýndi hún verkið More Love Hours á alþjóðlegu tónlistarhátíðinni Roskilde Festival. Verk Sóleyjar má finna í einkasöfnum erlendis og Statens Kunstfond í Danmörku.

Tölur, staðir | Þór Vigfússon

Á sýningunni Tölur, staðir má sjá og upplifa nýja innsetningu eftir myndlistarmanninn Þór Vigfússon sem hann vinnur sérstaklega með sýningarsal Gerðarsafns í huga. Sýningin samanstendur af fjölda jafnstórra ferninga úr lituðu gleri sem dreifast um veggi salarins eftir ákveðinni reglu og mynda víxlverkun milli forma, lita og rýmis. Við fyrstu sýn virðist sýning Þórs lítillát og óhlutbundin innsetning sem leiðir hugann að verkum í anda geómetríu eða naumhyggju. En þrátt fyrir sparsamt efnisval og framsetningu má við nánari athugun greina flókna hugmyndalega nálgun á sjálft skúlptúrformið.
Hér veltir listamaðurinn meðal annars fyrir sér þeim fagurfræðilegu möguleikum sem leynast í gleri og öðrum iðnaðarefnum og hvernig sjónræn og hárnákvæm tæknileg útfærsla þeirra getur haft mótandi áhrif á skynjun áhorfandans. Þá grundvallast sýningin á þeirri hugmynd að ekki aðeins framsetning heldur einnig staðsetning listaverks, það umhverfi sem verkið birtist í hverju sinni, hafi bein áhrif á upplifun og merkingarsköpun áhorfenda; ekki aðeins af verkinu sjálfu heldur einnig rýminu sem það umlykur. Sýningarstjóri er Heiðar Kári Rannversson.

Þór Vigfússon (f. 1954) nam í Mynd- og handíðaskóla Íslands og Strichting De Vrije Academie í Hag. Hann hefur haldið fjölda einkasýninga þar á meðal í; Skaftfelli, myndlistarmiðstöð Austurlands árið 2021, Gallery Gamma 2017, Kínverska Evrópska Listamistöð í Kína 2016, Quint Gallery í San Diego 2011, i8 Gallerí 2010 og 2005,  Safnasafninu 2010, Nýlistasafninu 2004, 1998 og 1995, Listasafni Árnesinga 2003, Gerðasafni 1999, Gallerí Corridor og Slunkaríki 1996.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page