Sýningaropnun: Brugg í Sal Íslenskrar grafíkur
fimmtudagur, 7. mars 2024
Sýningaropnun: Brugg í Sal Íslenskrar grafíkur
Myndlistarsýningin Brugg verður opnuð í sal Íslenskrar grafíkur í Hafnarhúsinu, Tryggvagötu 17 (hafnarmegin) á alþjóðlegum baráttudegi kvenna föstudaginn 8. mars 2024, kl. 16. Sýnendur eru: Anna Jóa, Bryndís Jónsdóttir, Guðbjörg Lind Jónsdóttir, Hildur Margrétardóttir, Hlíf Ásgrímsdóttir, Kristín Geirsdóttir, Kristín Jónsdóttur frá Munkaþverá og Ólöf Oddgeirsdóttir. Sýningin er haldin í tilefni þess að hópurinn fagnar á þessu ári tveggja áratuga sýningarafmæli. Boðið verður upp á léttar veitingar.
Sýningarhald hópsins hófst 17. júní 2004, á 60 ára afmæli íslenska lýðveldisins, og næsta áratuginn lögðu listamennirnir land undir fót og héldu níu sýningar í sex sveitarfélögum og tveimur löndum. Sýningarstaðirnir voru með ævintýralegasta móti: fyrrum ullarverksmiðja á Álafossi, gömul hlaða í Reykjahlíð við Mývatn, yfirgefnar verbúðir og síldarverksmiðja í Ingólfsfirði á Ströndum, Síldarminjasafnið á Siglufirði, hrumt verslunarhús á Þingeyri og tómt samkomuhús á Stokkeyri – en hópurinn hefur gjarnan sóst eftir því að sýna í óvenjulegu húsnæði á sérstökum stöðum og hefur menning, saga og náttúra staðanna verið veigamikill þáttur í merkingarsamhengi sýninganna. Sýningarnar voru kenndar við íslenska lýðveldið: lækinn, vatnið, fjörðinn, eyrina, planið, fjöruna – og strætið þegar hópurinn sýndi á mölinni; í húsi Sambands íslenskra myndlistarmanna í Hafnarstræti í Reykjavík. Lokasýningin, Lýðveldið í Höfn, var haldin í Jónshúsi í Kaupmannahöfn á sjötugasta afmælisári íslenska lýðveldisins. Samfara sýningarhaldinu var gefin út þríþætt sýningarskrá. Sýningarverkefnið var styrkt af Hlaðvarpanum – Menningarsjóði kvenna á Íslandi, Menningarmálanefnd Mosfellsbæjar, Menningarráði Vestfjarða, Menningarráði Suðurlands og af Myndstefi.
Árið 2016 efndi hópurinn til nýrrar sýningarraðar, fyrst með sýningunni Brjóstdropar í Nesstofu á Seltjarnarnesi og svo með Mixtúru á Hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum sem opnuð var á kvenréttindadeginum, hátíðis- og baráttudegi kvenna á Íslandi, þann 19. júní 2020. Nú er komið að því að brugga ljóða slag, svo vitnað sé í Látra-Björgu, að hætti myndlistar með sýningunni Brugg, á 80 ára afmælisári íslenska lýðveldisins.
Vaxi mugga og vindurinn
vil ég brugga ljóða slag
sigli dugga ein hér inn
oss að hugga nú í dag.
Opnunartími sýningarinnar er fimmtudaga til sunnudaga frá 8. til 17. mars, kl. 14-18, eða eftir pöntun. Gengið er inn í sal Íslenskrar grafíkur hafnarmegin.