Sýning: Kvennablóminn í Borgarbókasafnið - Menningarhús Spönginni
fimmtudagur, 26. október 2023
Sýning: Kvennablóminn í Borgarbókasafnið - Menningarhús Spönginni
Kvennablóminn er yfirskrift sýningar Þórunnar Elísabetar Sveinsdóttur sem nú stendur yfir á Borgarbókasafninu Spönginni.
Þórunn verður með sýningarspjall í Spönginni miðvikudaginn 25. október kl. 16:30.
Sýningin samanstendur af myndverkum sem unnin eru úr blúndum, pífum, dúkum og öðrum dýrindis textílum sem safnast hafa í kassa og handraða Tótu (Þórunnar Elísabetar Sveinsdóttur) í gegnum árin og áratugina. Handverk kvenna og endurnýting er stefið í einstökum hjörtum hennar sem segja margar sögur og kalla fram ýmsar tilfinningar…ást, gleði, öryggi, kraft, brostið hjarta og svo margt fleira…
„Ég er lifandi safnhaugur“ segir Tóta um sjálfa sig, „efnin hrúgast upp hjá mér, sumt geymi ég lengi, án sýnilegrar ástæðu, en svo kemur augnablikið þegar verkið er tilbúið í huganum. Hendurnar verða þá verkfæri og úr verður mynd.“
Myndirnar á sýningunni bera allar nöfn kvenna, þarna eru Ingibjörg og Guðríður, Sigþrúður og Margrét, Ríkey og Björg – er hún að vísa í ákveðnar konur? „Já“, segir Tóta, „þetta eru mömmur, ömmur, frumkvöðlar, hugsjónakonur, lifandi, dánar og löngu liðnar. Ég vil votta þeim virðingu mína og á vissan hátt gera þær ódauðlegar.“
Þórunn Elísabet stundaði myndlistarnám við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands. Hún hefur haldið einkasýningar og samsýningar og unnið við fjölda verkefna í leikhúsi og kvikmyndum sem búninga- og leikmyndahönnuður. Þórunn hefur sýnt víðsvegar um landið og stýrt og hannað fjölda safnsýninga.
Meðal kvikmyndaverkefna Þórunnar má nefna 101 Reykjavík, Ikingut og Hafið. Haldið var Sjónþing henni til heiðurs í Gerðubergi fyrir nokkrum árum. Hún hefur líka hlotið margar tilnefningar til Grímunnar og hlaut verðlaunin fyrir Sjö ævintýri um skömm, Rómeó og Júlíu og Leg.
Sýningin stendur til 7. desember og hana má skoða á opnunartíma safnsins, mán-fim kl. 10-18, fös 11-18 og lau 11-16.