SÍM Gallery: HUGSKYNJUN NÁTTÚRUNNAR - Arna Gná Gunnarsdóttir og Margrét Jónsdóttir_listmálari
þriðjudagur, 30. nóvember 2021
SÍM Gallery: HUGSKYNJUN NÁTTÚRUNNAR - Arna Gná Gunnarsdóttir og Margrét Jónsdóttir_listmálari
HUGSKYNJUN NÁTTÚRUNNAR - Arna Gná Gunnarsdóttir – MARGRÉT JÓNSDÓTTIR_listmálari
SÍM salurinn Hafnarstræti 16, 101 Reykjavík
Desembersýning árið 2021 - Opið virka daga milli 12 og 16.
Opið helgina 17.-19. desember frá 12-18.
Opið milli jóla og nýárs 27.-30. des frá 12-18
Þetta er önnur samsýning Örnu og Margrétar en sú fyrri nefndist Blóðbönd og var í Grafíksalnum í Tryggvagötu árið 2017. HUGSKYNJUN NÁTTÚRUNNAR er einhverskonar áframhald. Listakonurnar eru tengdar ýmsum böndum, bæði blóðböndum og myndlistarböndum. Báðar sækja þær innblástur til Frakklands en þær starfa báðar að list sinni á Íslandi og Frakklandi. Þrátt fyrir að vinna ekki með sömu miðla vinna þær oft með sömu viðfangsefni, eins og t.d. líkamann, líkamsvessa, femíniskar hugleiðingar, viðhorf og tilraunakennda heilun og innhverfa íhugun. Sýningin HUGSKYNJUN NÁTTÚRUNNAR er unnin út frá orkunni sem flæðir lífrænt allt um kring, og hvernig náttúra, líkami og samfélag mótar upplifanir og tilfinningar. Verkin á sýningunni setja í form tilviljanakenndar vangaveltur um samfélag manna og samruna þess við náttúruna. Listakonurnar vinna með þetta flæði með því að gera það sýnilegt og formfast með þeim miðlum, efni, formi og litum sem þær vinna með sem er málverk á pappír og textíl skúlptúr
Arna Gná Gunnarsdóttir myndlistarkona er fædd í Reykjavík (1974) býr og starfar í Strassborg, Frakklandi. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands með BA gráðu í myndlist árið 2006 og einnig kennsluréttindi frá Listaháskólanum árið 2007. Hún nam líka við Kunstakademiet, department of fine art, Bergen, Noregi og í Royal Institude of Art Stockholm, Sviþjóð. Eftir útskrift hefur hún tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýningar á verkum sínum á Íslandi og í Frakklandi.
Arna leitast við að setja í form hugmyndir samfélags og tilfinningar tengda umhverfi, upplifunar, náttúru og líkama. Efniskennd, form, litir og áferð, formfesta orkuna umhverfis okkur. Hún skapar veruleika sinn og gerir hann sýnilegan og efniskenndann. Aðallega vinnur hún með textíl, efni og aðferðir sem eru djúpt í hefðum Íslendinga, kvenlegar hefðir og femínisma. Innblástur og áhrif koma einnig gjarnan frá tísku (fashion), samfélags mynstri og náttúru.
Instagram: https://www.instagram.com/arna_gna
MARGRÉT JÓNSDÓTTIR_listmálari er fædd í Reykjavík, starfar að myndlist á Íslandi og Frakklandi og er starfsferillinn rúm 50 ár. Menntuð við Myndlista og Handíðaskóla Íslands, diploma í frjálsri myndlist og síðar diploma í grafískri hönnun, mastersnám við Central Saint Martins Collage of Art í London og diploma frá Kennaraháskólanum. Haldið yfir 50 einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Einn af stofnendum Gallery Suðurgötu 7 sem var mikilvæg miðstöð í þróun framlínumyndlistar á Íslandi. Getið í ritinu Íslensk listasaga, fimm binda verk og spannar tímabilið frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. Einn af stofnendum Hagsmunafélags Myndlistarmanna sem var undanfari Sambands Íslenskra Myndlistarmanna ásamt stofnun SÍM. Verk í eigu helstu listasafna landsins. Hefur hlotið ferðastyrki og starfslaun listamanna. Meðlimur í FÍM, Íslensk Grafík, SÍM, Nýlistasafninu.
Verkin sem Margrét sýnir núna í SÍMsalnum eru afrakstur verkefnisstyrkja sem Margrét hlaut vegna COVID-19 árið 2020. Menningarstyrkur Reykjavíkur og Myndlistarsjóður styrktu verkefnið. Styrkurinn varð til þess að Margrét hóf myndröð sem nefndist COVID-19 í vinnuferli. Orka verkefnisins varð til þess að hún lenti í einhverskonar árás neikvæðra afla, gernigarhríða því allt sem gat kollvarpast á þessu tímabili fór á hinn versta veg. Verkefnið er í þróun og eitt leiðir af öðru og í dag kallast vinnuferlið Óbærilegur léttleiki tilverunnar sem er upplifun Margrétar á gerningarhríðum drauga, ára, vírusa og annarra kynlausra náttúrufyrirbæra. Á instagram er hægt að sjá brot af vinnuferlinu merktu COVID-19
https://www.instagram.com/mjons_artist