Síldarstúlkur í smíðum á Siglufirði
föstudagur, 12. maí 2023
Síldarstúlkur í smíðum á Siglufirði
Spennandi myndlistarævintýri er í uppsiglingu á Siglufirði. Í smíðum er minnisvarði um þátt kvenna í íslensku atvinnu og efnahagslífi á síðustu öld. Vinnuferlið er opið almenningi og hægt að fylgjast með framvindu verkefnisins, því sem næst í rauntíma.
Höfundur listaverksins er Arthur Ragnarsson myndlistarmaður og smíðin fer fram á SR vélaverkstæði á Siglufirði eftir frummyndum og í umsjá listamanns. Í samráði við Síldarminjasafn Íslands er ætlunin að listaverkið verði staðsett á bryggjuplani sem reist verður í sjó við safnið í sumar.
Skúlptúrinn er unninn í Corténstál og myndar Þrjár kvennfígúrur sem standa við fimm síldartunnur. Form verksins eru skorin úr 6mm plötum og soðin saman. Stálið myndar síðan fína ryðhúð sem ver verkið og nánast stöðvar tæringu. Listaverkið er upplýst frá botni síldartunnanna og Þegar rökkva fer glitrar gullin spegilmyndin í sjónum. Ríkisstjórn íslands styrkir gerð minnisvarðans.
Facebook-síða verkefnisins stendur fyrir einstökum menningarviðburði þar sem almenningur fær að fylgjast með gerð og smíði listaverksins og framvindu verkefnisins í rauntíma. Sjá Facebook-síðuna: Síldarstúlkan á Siglufirði.
Einnig má skoða gerð frummynda og fylgjast með myndskotum úr vélsmiðju á vef listamannsins, https://arthurra.se/Projects.html