Síðustu sögur: Björg Örvar
fimmtudagur, 8. ágúst 2024
Síðustu sögur: Björg Örvar
Björg Örvar sýnir ný og eldri verk í Gallery Gunhil, Hlíðarfæti 13, 102 Reykjavík.
Opnun sýningarinnar er á laugardaginn 10 ágúst kl. 16. Sýningin verður opin næstu mánuði á venjulegum skrifstofutíma eða eftir samkomulagi.
Björg Örvar nam myndlist við Myndlista og handíðaskóla Íslands á árunum 1975-79 og við University of California, Davis í Bandaríkjunum 1981-83. Hún hefur starfað síðan og átt heima á Íslandi, Ítalíu og í Bandaríkjunum. Hún hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum heima og erlendis, hefur kennt myndlist, þegið starfslaun, verið tilnefnd til myndlistarverðlauna, útnefnd bæjarlistamaður auk þess að sinna ritstörfum. Hún hefur gefið út skáldsögu og ljóðabók. Verk eftir Björgu er að finna í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, söfnum ýmissa bæja og stofnana, banka og í einkasöfnum.
Úr grein eftir Aðalstein Ingólfsson, Náttúran í verðandi sinni:
Í málverkum Bjargar skarast alheimur og smáheimur, bakteríugróður og stjörnuþokur, líkaminn hið innra og ytra og jarðkringlan hið innra og ytra: allt er eitt og verðandi. Þessi niðurstaða listamannsins er í eðli sínu trúarleg, eða að minnsta kosti á hún samsvörun í mörgum helstu trúarbrögðum mannskyns, svo og listaverkum víðsýnna listamanna á borð við Kandynski. …eins og Halldóra Thoroddsen rithöfundur kemst að orði í skemmtilegri hugleiðingu um verk Bjargar árið 2006 þá fylgja náttúrulífsmyndir hennar ekki viðtekinni menningarlegri forskrift, heldur eru þær tilraunir til að fjalla um “náttúru á eigin forsendum”, með öllum þeim mótsögnum sem slíkri framkvæmd fylgja. Það er einungis hægt að gera með því að rjúfa sambandið milli náttúru rauntíma og samfélags, og opna í staðinn fyrir víðustu skynjun tilvistar, þar sem náttúran og við erum í sameiningu einungis efnisagnir…”í tómi leitandi að sinni samsvörun”.
Það sem er skemmtilegt við þessi mjög svo óefniskenndu verk… er það sem ég myndi kalla líkamleg nánd þeirra. Hér á ég fyrst og fremst við litróf blóðsins, lífsins vökva sem notað er sem orkulind þeirra umbreytinga sem eiga sér stað í málverkum Bjargar, blæbrigði þess spanna allan litarháttinn frá blóðrauðu hjartans til blóðmuru rósaættarinnar og blóðsteina ólífrænnar náttúru. Ekki er síður áhrifamikil…fjölbreytt áferð og mynsturgerð þar sem verkfærum málarans er beitt með óhefðbundnum hætti, í senn afdráttarlaust og ofur blíðlega….hún byggir upp ákveðið frumlag á myndfletinum, vinnur það áfram uns áhorfandi þykist geta borið kennsl og skynjað samhengi þess. Þá er það sem hún slær á væntingar hans, tekur stefnuna í aðra og óræðari átt og skilur okkur eftir í lausu lofti….