Síðasta sýningarhelgi í Ásmundarsafni
fimmtudagur, 19. janúar 2023
Síðasta sýningarhelgi í Ásmundarsafni
Síðasta sýningarhelgi – Unndór Egill Jónsson og Ásmundur Sveinsson: Eftir stórhríðina
Nú líður að sýningarlokum á sýningunni Unndór Egill Jónsson og Ásmundur Sveinsson: Eftir stórhríðina í Ásmundarsafni en síðasti sýningardagur er sunnudagurinn 22. janúar. Safnið er opið frá kl. 13 -17 alla daga.
Á sýningunni mætast myndhöggvarar tveggja tíma í samtali sem veitir nýja sín á arfleifð Ásmundar Sveinssonar ásamt því að kynna fyrir gestum ný verk starfandi listamanns. Að þessu sinni sýnir Unndór Egill Jónsson verk sín í samtali við verk Ásmundar en safnið hefur nú um nokkurt skeið unnið með arfleifð Ásmundar á þennan hátt.
Unndór Egill Jónsson (1978) útskrifaðist með BA-gráðu frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2008 og lauk MFA-námi frá Valand School of Art í Gautaborg árið 2011. Undanfarin ár hefur hann sýnt bæði á Íslandi og erlendis, meðal annars á samsýningunum Momentum Design í Moss í Noregi árið 2010, Ríki, flóra, fána, fabúla í Listasafni Reykjavíkur árið 2016, í Estonian Museum of Contemporary Art í Tallinn í Eistlandi árið 2018 og á sýningunni Abrakadabra í Listasafni Reykjavíkur árið 2021. Árið 2020 hélt Unndór einkasýninguna Cul de Sac í Kling og Bang í Marshall-húsinu.