Romain Causel:
THE WANDERING OF A BRICOLEUR
föstudagur, 28. júlí 2023
Romain Causel:
THE WANDERING OF A BRICOLEUR
Föstudaginn 28. júlí kl. 16 verður opnuð sýning á verkum Romain Causel í Úthverfu á Ísafirði. Sýningin ber heitið The Wandering of a Bricoleur og stendur til sunnudagsins 20. ágúst. Listamaðurinn hefur dvalið undanfarnar vikur í gestavinnustofum ArtsIceland á Ísafirði og verður viðstaddur opnun sýningarinnar.
Romain Causel er þverfaglegur listamaður með aðsetur í Marseille í Suður-Frakklandi. Hann útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2021. Fagurfræði hans er spunaferli, lítilvirk og þróast með tímanum. Hann sækir innblástur og efni í hluti sem hefur verið fleygt, yfirgefin rými og fáránleikann í samtíma okkar. Hann skapar oft staðbundnar innsetningar sem endurspegla umhverfið. Með húmor og ómótaðri frásögn sinni tekur hann á málefnum er varða umhverfið og stjórnmálin.
„Nú, það sem einkennir goðsagnakennda hugsun er að hún tjáir sig með hjálp gagnasafns þar sem samsetningin er misleit og þrátt fyrir að vera umfangsmikil, er samt sem áður takmörkuð; engu að síður verður hún að notast við þetta, sama hvert viðfangsefnið er, því hún hefur ekkert annað við höndina.“ - Claude Lévi-Strauss, The Savage Mind (1962)
„The Wandering of a Bricoleur“ snýst um persónuna ,,The Bricoleur“ sem listamaðurinn skapaði sem nokkurs konar ýkta útgáfu af sjálfum sér. Hugtakið „bricoleur“ hefur margar merkingar á frönsku, allt frá handverksmanni til reddara, og getur jafnvel þýtt bragðarefur. Í öllu falli er merkingin sú að ná árangri með útsjónarsemi, háð aðstæðum. Á sýningunni í Úthverfu eru vídeó, skúlptúrar og hlutir sem rannsaka heim þessarar persónu án þess að neinn augljós söguþráður sé til staðar. Allt snýst um hina forvitnilegu spurningu: "Hver er eðlileg notkun?" Þér er boðið að ganga inn í heim fáránleika og raða saman hlutunum.