top of page

Ragnar Kjartansson hlýtur heiðursviðurkenningu Útflutningsverðlauna Forseta Íslands

508A4884.JPG

fimmtudagur, 12. júní 2025

Ragnar Kjartansson hlýtur heiðursviðurkenningu Útflutningsverðlauna Forseta Íslands

Myndlistamaðurinn Ragnar Kjartansson hlaut í dag sérstaka heiðursviðurkenningu, samhliða veitingu Útflutningsverðlaun forseta Íslands. Viðurkenningin er veitt árlega til einsaklings sem hefur með starfi sínu og verkum borið hróður Íslands víða um heim. Í ár hlaut Ragnar Kjartansson þennan heiður fyrir framlag sitt á alþjóðavettvangi.

Ragnar Kjartansson fæddist árið 1976 í Reykjavík, þar sem hann býr og starfar. Hann stundaði nám við Listaháskóla Íslands og vakti snemma athygli – bæði fyrir myndlist sína og sem meðlimur í hljómsveitinni Trabant, þar sem hann sameinaði tónlist, sviðslistir og sjónræna tjáningu á sinn einstaka hátt.

Ragnar ólst upp í leikhúsumhverfi – foreldrar hans eru leikkonan Guðrún Ásmundsdóttir og leikarinn og leikstjórinn Kjartan Ragnarsson. Þessi arfur hefur mótað list hans. Hann beitir leikrænum aðferðum og sviðsetningu og færist áreynslulaust á milli miðla í verkum sínum: tónlist verður að höggmynd, málverk að gjörningi og kvikmynd að uppstillingu. Í verkum hans mætast gáski og harmur, einlægni og íronía – í tilraun til að fanga marglaga tilfinningar og félagslegar spurningar samtímans.

Ragnar vakti fyrst alþjóðlega athygli á Feneyjartvíæringnum árið 2009, þar sem hann sýndi fyrir hönd Íslands. Síðan þá hefur hann hlotið fjölda viðurkenninga, meðal annars Performa Malcolm McLaren árið 2011 og Ars Fennica árið 2019. Verk hans hafa verið sýnd í virtustu listasöfnum heims, svo sem Metropolitan Museum of Art, Barbican Centre og Louisiana Museum of Modern Art, auk þess sem þau eru í eigu margra helstu safna bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, þar á meðal Museum of Modern Art og Guggenheim í New York.

Hér heima hefur hann haldið stórar sýningar í Listasafni Reykjavíkur og Listasafni Íslands og átt farsælt samstarf við i8 gallerí í meira en tvo áratugi – sem hefur kynnt og selt verk hans á alþjóðlegum vettvangi.

Ragnar Kjartansson hefur ekki aðeins sett íslenska samtímalist á kortið heldur haft djúpstæð áhrif á þróun hennar. Verk hans leika sér með klisjur, fegurð og tilfinningar, takast á við flókin málefni með næmni og leikgleði – og halda áhorfendum sífellt á tánum. Með frumleika og djörfung hefur hann opnað dyr fyrir íslenska list á alþjóðavettvangi, fært nýjar hugmyndir inn í hinn alþjóðlega listheim og hvatt nýjar og komandi kynslóðir listamanna til dáða.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page