RAFLÍNUR Arna G. Valsdóttir og Karl Guðmundsson
fimmtudagur, 15. júní 2023
RAFLÍNUR Arna G. Valsdóttir og Karl Guðmundsson
Arna G. Valsdóttir og Karl Guðmundsson bjóða gestum að ganga inn í myndbands innsetningu/lifandi málverk í Deiglunni. Í verkinu mætir rafmagnshjólastóll rafrænni myndsköpun og dansandi línum. Opnun 17. júní kl. 17.00 - 22.00
Arna G. Valsdóttir og Karl Guðmundsson leiða saman hesta sína í samvinnuverkinu RAFLÍNUR í Deiglunni á Akureyri. Þetta er í fyrsta sinn sem Karl tekur þátt í að skapa vídeó innsetningu en hér beita listamennirnir myndbandstækninni til að skyggnast inn í heim hvors annars.
Titill sýningarinnar vísar annarsvegar í rafmagnið sem kvikmynda/vörpunartæknin byggir á, þar sem teiknað er í rýmið með rafljósi, og hinsvegar í rafmagnshljólastól Karls sem nýttur er í verkinu. Í Raflínum ferðast Karl um rýmið á rafmagnshjólastólnum sem hann stýrir alfarið sjálfur með höfðinu en ferðalag hans má skoða sem línur í rýminu. Á móti ferðalagi þessu birtast brot úr fyrsta vídeóverkinu sem Karl og Arna unnu saman ”Hugarró” sem sýnt var á einkasýningu Karls í Listasafninu á Akureyri 2021. Í því verki dansa línurnar sem einkenna málverk Kalla, unnin í áralöngu samstarfi hans við Rósu Kristínu Júlíusdóttur. Línan er ferðalag frá einum punkti til annars, hvort sem hún er máluð eða ”ósýnileg” eins og þegar listamaður ferðast í rafmagnshjólastól frá einum punkti til annars. Dansandi Línur er einmitt heiti á heimildarmyndinni um líf og list Karls.
Grunnurinn í verkinu Raflínur er fyrsta myndband sem Karl tók upp sjálfur. Hann ferðaðist um heimili sitt og endaði á því að mæta sjálfum sér í spegli. Þetta verk hafa þau Arna og Kalli nú tengt við tökur af málverkum Kalla sem hreyfast í myndfletinum og tökur Örnu af Kalla ferðast um.
Raflínur byggir á listrænu samtali Karls og Örnu sem hófst árið 2017. Samtal um hugmyndafræði og myndræna sýn eða hugsun. Um myndbyggingu, liti, form, fjarlægðir, afstöðu, margfeldi, gagnsæi, mynstur, endurtekningu, frádrátt, hreyfingu í myndfleti, orku og útgeislun þar sem listamennirnir reyna að sjá með augum hvors annars. Um tilfinningar og upplifanir og hvernig hægt er að miðla þeim í myndfleti. Um hvernig hægt er að nýta myndbandstæknina til að koma línum Kalla á hreyfingu.
Raflínur er kannski leit eftir því sammannlega og því einstaka. Því sem tengir okkur saman í öllum okkar fjölbreytileika.