top of page

RAFLÍNUR Arna G. Valsdóttir og Karl Guðmundsson

508A4884.JPG

fimmtudagur, 15. júní 2023

RAFLÍNUR Arna G. Valsdóttir og Karl Guðmundsson

Arna G. Valsdóttir og Karl Guðmundsson bjóða gestum að ganga inn í myndbands innsetningu/lifandi málverk í Deiglunni. Í verkinu mætir rafmagnshjólastóll rafrænni myndsköpun og dansandi línum. Opnun 17. júní kl. 17.00 - 22.00

Arna G. Valsdóttir og Karl Guðmundsson leiða saman hesta sína í samvinnuverkinu RAFLÍNUR í Deiglunni á Akureyri. Þetta er í fyrsta sinn sem Karl tekur þátt í að skapa vídeó innsetningu en hér beita listamennirnir myndbandstækninni til að skyggnast inn í heim hvors annars.

Titill sýningarinnar vísar annarsvegar í rafmagnið sem kvikmynda/vörpunartæknin byggir á, þar sem teiknað er í rýmið með rafljósi, og hinsvegar í rafmagnshljólastól Karls sem nýttur er í verkinu. Í Raflínum ferðast Karl um rýmið á rafmagnshjólastólnum sem hann stýrir alfarið sjálfur með höfðinu en ferðalag hans má skoða sem línur í rýminu. Á móti ferðalagi þessu birtast brot úr fyrsta vídeóverkinu sem Karl og Arna unnu saman ”Hugarró” sem sýnt var á einkasýningu Karls í Listasafninu á Akureyri 2021. Í því verki dansa línurnar sem einkenna málverk Kalla, unnin í áralöngu samstarfi hans við Rósu Kristínu Júlíusdóttur. Línan er ferðalag frá einum punkti til annars, hvort sem hún er máluð eða ”ósýnileg” eins og þegar listamaður ferðast í rafmagnshjólastól frá einum punkti til annars. Dansandi Línur er einmitt heiti á heimildarmyndinni um líf og list Karls.

Grunnurinn í verkinu Raflínur er fyrsta myndband sem Karl tók upp sjálfur. Hann ferðaðist um heimili sitt og endaði á því að mæta sjálfum sér í spegli. Þetta verk hafa þau Arna og Kalli nú tengt við tökur af málverkum Kalla sem hreyfast í myndfletinum og tökur Örnu af Kalla ferðast um.

Raflínur byggir á listrænu samtali Karls og Örnu sem hófst árið 2017. Samtal um hugmyndafræði og myndræna sýn eða hugsun. Um myndbyggingu, liti, form, fjarlægðir, afstöðu, margfeldi, gagnsæi, mynstur, endurtekningu, frádrátt, hreyfingu í myndfleti, orku og útgeislun þar sem listamennirnir reyna að sjá með augum hvors annars. Um tilfinningar og upplifanir og hvernig hægt er að miðla þeim í myndfleti. Um hvernig hægt er að nýta myndbandstæknina til að koma línum Kalla á hreyfingu.

Raflínur er kannski leit eftir því sammannlega og því einstaka. Því sem tengir okkur saman í öllum okkar fjölbreytileika.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page