RÓSAMÁL OG LAGSKIPT TÁKNKERFI
miðvikudagur, 24. apríl 2024
RÓSAMÁL OG LAGSKIPT TÁKNKERFI
Sýningaropnun og útgáfuhóf í Portfolio galleri, RÓSAMÁL OG LAGSKIPT TÁKNKERFI, laugardaginn 20. apríl kl 16.00 - 18:00. Myndverk eftir Ólöfu Björgu Björnsdóttur myndlistarkonu og ljóðskreytingar eftir Jón Proppé listfræðing.
Sýnd verða myndverk sem Ólöf Björg hefur unnið síðustu ár, ýmist á pappír eða striga. Ólöf kannar tjáningarmöguleika mannslíkamans í verkum sínum og þótt hún vinni með fyrirsætum er eins og fólkið í myndunum spretti beint úr hugarfylgsnum hennar og hver og einn öðlist sitt eigið líf, persónu og sögu sem áhorfandinn getur skynjað og rakið í huga sér.
Opnun sýningarinnar er jafnframt útgáfuhóf bókar sem Ólöf og Jón Proppé hafa unnið saman og byggir á stórri myndröð á sýningunni og Íslenskri orðabók Árna Böðvarssonar. Bókverkið er afrakstur margra ára vináttu og samstarfs þeirra, og endurspeglar sameiginlegan áhuga þeirra á myndgerð, tungumáli og heimspekilegum pælingum.
Í sýningarskrá skrifar Jón Proppé:
„Þetta eru lagskipt táknkerfi þar sem mismunandi lög tjáningar og tilvísana renna til og skarast … það er einmitt þegar við leyfum þessum sviðum að rekast á og núast að eitthvað nýtt getur orðið til, ný hugsun, nýr skilningur eða eitthvað fyndið sem fær okkur til að brosa.“