top of page

Portfólíó Gallerí: Útjaðar /Periphery - Sigga Björg Sigurðardóttir - lokahóf og listamannaspjall

508A4884.JPG

fimmtudagur, 5. maí 2022

Portfólíó Gallerí: Útjaðar /Periphery - Sigga Björg Sigurðardóttir - lokahóf og listamannaspjall

Finissage / Lokahóf og listamannaspjall.
Laugardaginn 7. maí er síðasti sýningardagur sýningar Siggu Bjargar Sigurðardóttur, Útjaðar / Periphery, í Porfólíó Gallerí.
Í tilefni af því blásum við til lokahófs / finisage frá klukkan 16 - 18!
Birta Guðjónsdóttir mun svo leiða listamannaspjall við Siggu Björgu sem hefst klukkan 16.30.
Verið hjartanlega velkomin!
Léttar veitingar í boði.

Í viðhengi er plakat eftir Godd (Guðmundur Oddur Magnússon) og
texti um verkin eftir Jón Proppé.
Hugleiðingar um sýninguna eftir Birtu Guðjónsdóttur

Útjaðar / Periphery

Útjaðarinn, jaðar myndflatarins, jaðar augnsviðsins, jaðar hins útskýranlega og þess skynjanlega.
Jaðar hlutanna markar þá sýn er liggur til grundvallar þeirri sjónupplifun sem við höfum skilningarvit til að nema. Jaðarinn ber líka í sér þætti sem ekki eru augsýnilegir og liggja utan þeirra fimm skilningarvita sem algengast er að skilgreina mannskepnuna með. Það fer eftir upplifunum okkar hvers og eins hversu margar víddir okkar skynjunarvita við teljum til getu okkar, til að upplifa heiminn og okkur sjálf með, og á hvaða hátt við hlúum að og eflum þá getu.

Verk Siggu Bjargar Sigurðardóttur á einkasýningunni Útjaðar gefa til kynna að skynjunarvitin séu fleiri en fimm og gefa okkur innsýn inn í magík og möguleika okkar til að vefa saman flóknari raunveruleika-mynstur en við könnumst sjálf við í röklega raunveruleikanum, og þræða okkur þannig eftir ófyrirsjáanlegum leiðum inn í framtíðina.
Hér erum við minnt á það hvers myndlistin er megnug í því að sýna okkur það sem ekki verður lýst með öðrum miðlum, sýna okkur veruleika og víddir er tilheyra framtíðinni og færa okkur þannig, skref fyrir skref, áfram í okkar eigin þroskaferli sem skynverur.

Titill sýningarinnar Útjaðar vísar til hins óræða svæðis sem við sjáum útundan okkur; forma og lita í bakgrunni, í útjaðri þess veruleika er við upplifum. Myndræn skynupplifun, þegar hugurinn fær hvíld og traust er lagt á hina mögnuðu undirvitund mannsins, er hér kjarni sýningarinnar og þess ferlis er Sigga Björg tekst á við að skapa.

Verk Siggu Bjargar hafa þróast í töluvert nýjar áttir á síðastliðnum árum þótt sá miðill sem hún vinnur með sé að mestu áfram teikningin. Myndmálið færist í átt til hins óhlutbundna og þannig er að skapast nýr myndheimur, sem tengist þó sterklega eldri verkum hennar. Hluti af þróunarferlinu felst í því að liturinn kemur sterkar inn í verkin og formin leysast að nokkru leyti upp. Litirnir í nýlegum verkunum hennar eru skarpir. Formin hverfast hvert um annað. Á milli þeirra eru tengsl, strúktúrar sem eiga sér innri lögmál er hvorki listamaðurinn né áhorfandinn geta auðveldlega skilgreint, heldur er eins og þessi lögmál muni hugsanlega skýrast eftir eina öld eða þegar skynjunarvit mannsins hafa náð til þess auknum þroska.
Hér birtast form sem eru gefinn einskonar rýmislegur rammi í teikningunni. Í sumum tilfellum gólfefni, í öðrum veggir, sem veita okkur inngöngu inn í verkið á þann hátt að við getum samsamað okkur, líkamshylkinu, því rými og þeim formum sem við sjáum á myndfletinum, hvort sem um er að ræða í verkum á pappír, á vegg eða í myndbandsverki.
Verkin eru unnin með bleki, vatnslit og blýanti á pappír og eru þau afurð vinnuferlis þar sem teikningin er notuð til að kanna innri raunveruleika er birtist á útjaðri hins mannlega veruleika. Auk þess má á sýningunni sjá myndbandsverk en Sigga Björg hefur lengi unnið með hreyfimiðla og gjarnan sýnt myndbandsverk með teikniverkum sínum.
Útjaðar er formupplifun er býður gestum að ganga inn í ýmsar víddir veruleikans. Litasprengja, sem umvefur áhorfendur og er í senn römmuð inn af formum sem birtast okkur í samhverfu, hverfulleika og hverfast um okkur. Við erum minnt á það hvernig orkusvið mannslíkamans getur breyst á sekúndubroti og hér er orkulíkaminn nuddaður á myndrænan hátt, svo áhrifanna gætir áfram eftir sýningarheimsóknina.
Hugleiðingar um sýninguna Útjaðar: Birta Guðjónsdóttir

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page