origin – ::::::: – uppruni í Höggmyndagarðinum
fimmtudagur, 2. nóvember 2023
origin – ::::::: – uppruni í Höggmyndagarðinum
Verið hjartanlega velkomin á opnun sýningarinnar origin – ::::::: – uppruni eftir Bryndísi Björnsdóttur í Höggmyndagarðinum þann 4. Nóvember kl 17:00.
Nýting náttúruauðlinda frá og með nýlendutímum hefur rekið vistkerfi í þrot. Uppi vakir sú spurning hvort fram undan sé tímabil jarðmótunar þar sem við mótum jörðina líkt og við myndum móta framandi plánetu og tækniþróun yrði fléttuð við náttúruna. Sýningin origin – ::::::: – uppruni birtir útgáfu af leikfangi sem vanalega má finna í biðstofum stofnana þar sem hægt er að færa viðarkubba til og frá á vírum. Leikfanginu er ætlað að auka samhæfingu augna og handa og rýmisvitund og á sama tíma að mynda færni í að kanna tengsl orsakar og afleiðingar. Á sýningunni fær leikfangið hins vegar nýja merkingu. Það birtist sem vél í sinni einföldustu mynd með áherslu á vogarafl og hreyfanleika. Vélinni er ætlað að vekja hugleiðingar um næstu skref jarðmótunar en í stað viðarkubba má finna iðnframleiddar saltsteins-einingar fyrir dýr. Dýr hafa lengi leitað að steinefnaríkri jörð til að sleikja fyrir nauðsynleg sölt og steinefni; leiðir þeirra urðu að slóðum sem menn notuðu snemma - og þróast loks í þá vegi sem mynduðu innviði siðmenningarinnar. Listaverkið endurskoðar þessa siðmenningu, þar sem skúlptaðir saltsteinar líkjast ljósum hold-einingum eða húðflipum innan vélarbyggingarinnar. Iðnframleiddir saltsteinar eru aðallega framleiddir með slíkan litartón. Eftir því sem tækninni fleygir fram samhliða gervigreind, virðist sem djúpstæður kynþáttaójöfnuður sem á sér rætur á nýlendutímanum sé í stakk búinn að yfirfærast í stafræna miðla þar sem mörk húðarinnar taka á sig mynd í forritun sem byggir á fyrri þekkingu mannsins. Verkið miðar ekki aðeins að því að endurmóta heldur einnig að auka samhæfingu auga og handa umfram formerki þess merkingarramma sem okkar tímar hafa skapað.
Samhliða verkinu er framlag April Dobbins í formi texta og gjörnings, þar sem hún á í samtali við verkið um þessar hugleiðingar. Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði og Miðborgarsjóði Reykjavíkurborgar.