Opnun – Kassíópeia
fimmtudagur, 30. maí 2024
Opnun – Kassíópeia
Föstudaginn 31. maí kl. 17 bjóðum við ykkur hjartanlega velkomin á opnun sýningar Guðnýjar Guðmundsdóttur, Kassíópeiu, í Sverrissal Hafnarborgar. Á sýningunni getur að líta mestmegnis ný og nýleg verk eftir listakonuna, sem hún vinnur á pappír og í leir, auk vídeóverka. Þá speglar hún sjálfa sig í verkunum og dregur fram pælingar um sært egó, sjálfsupphafningu og sjálfselsku, þar sem innblástur er sóttur í gríska goðafræði.
Áhorfandinn stígur inn í óræðan heim, þar sem finna má titla á þýsku, frönsku og ensku, áletranir og vísanir í verur og fyrirbæri úr hinum klassíska heimi. Þá færa verkin okkur fram og til baka í tíma og fá okkur til að velta vöngum yfir innri tengingum eða sambandi, þar sem þau mynda eins konar stjörnumerki eða þyrpingu sem býður ef til vill upp á fleiri spurningar en svör.
Guðný Guðmundsdóttir (f. 1970) útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1993, Hochschule für bildende Künste Hamburg árið 2001 og hefur starfað við myndlist síðan. Í listsköpun sinni vinnur hún með miðla eins og teikningu, málverk, klippimyndir, skúlptúr og ljósmyndun. Guðný býr og starfar í Berlín.