top of page

Opnun – Gletta og Án titils

508A4884.JPG

fimmtudagur, 12. janúar 2023

Opnun – Gletta og Án titils

Hafnarborg býður gesti hjartanlega velkomna á opnun tveggja nýrra sýninga laugardaginn 14. janúar kl. 14. Í aðalsal Hafnarborgar verður opnuð sýningin Gletta þar sem sjá má verk sem spanna feril listakonunnar Sóleyjar Eiríksdóttur (1957-1994) en á síðastliðnu ári bættist vegleg listaverkagjöf við safneign Hafnarborgar þegar safninu var fært úrval voldugra skúlptúra úr steinsteypu eftir listakonuna. Á sýningunni verða meðal annars sýnd þau verk sem nú hafa bæst við safneign Hafnarborgar, auk fleiri verka í eigu Hafnarborgar, annarra opinberra safna og einkasafnara. Sýningarstjórar eru Aldís Arnardóttir og Aðalheiður Valgeirsdóttir.
Í Sverrissal verður svo opnuð sýningin Án titils, þar sem sýnd verða verk eftir Eirík Smith (1925-2016), myndlistarmann og föður Sóleyjar, en bæði tengdust þau safninu sterkum böndum og settu sitt mark á sýningardagskrá Hafnarborgar frá upphafi. Á sýningunni verða einkum sýndar gvassmyndir Eiríks frá fyrri hluta sjötta áratugarins en mörg verkanna hafa ekki verið sýnd opinberlega áður. Þá eru verk listamannsins frá þessu tímabili fágæt, þar sem Eiríkur brenndi fjölda verka sinna í malargryfju í Hafnarfirði árið 1957, en þau verk sem varðveist hafa bera þess þó vitni að Eiríkur hafði góð tök á myndgerð strangflatalistarinnar, þó að hann kysi að fara aðra leið í listsköpun sinni í framhaldinu.
Sóley Eiríksdóttir lagði stund á nám við málmiðnaðardeild Iðnskólans í Hafnarfirði í eitt ár eftir nám við Flensborgarskólann. Árið 1975 hóf hún svo nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, fyrst við kennaradeild en hún útskrifaðist síðan frá leirlistadeild skólans árið 1981. Sóley sýndi verk sín víða á stuttum ferli, meðal annars á Kjarvalsstöðum, í Hafnarborg, Gallerí Langbrók og Listasafni ASÍ, auk þess sem hún hélt sýningar í Bandaríkjunum, Finnlandi, Lúxemburg, Kanada og Þýskalandi.
Eiríkur Smith stundaði nám við Málara- og teikniskóla Finns Jónssonar og Jóhanns Briem veturinn 1939-1940 og við Handíða- og myndlistarskólann árin 1946-1948. Sama ár fór hann svo til Kaupmannahafnar í nám til 1950 en árið 1951 hélt hann til Parísar þar sem hann nam myndlist við Académie de la Grande Chaumiére. Hann hélt fjölda einkasýninga, auk þess að taka þátt í samsýningum víða um heim á löngum ferli sínum. Verk eftir Eirík er að finna í söfnum víðs vegar, svo sem í safneign Listasafns Íslands, Gerðarsafns og Listasafns Reykjavíkur en auk þess varðveitir Hafnarborg um 400 verk eftir listamanninn.
Auður Ava Ólafsdóttir, rithöfundur og listfræðingur, ávarpar gesti við opnunina.
Þess má einnig geta að samhliða sýningunni á verkum Sóleyjar Eiríksdóttur verður gefin út vegleg sýningarskrá.
Aðgangur ókeypis – sjáumst í Hafnarborg.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page