Opnun – Flæðarmál og Vísar í Hafnarborg
fimmtudagur, 11. janúar 2024
Opnun – Flæðarmál og Vísar í Hafnarborg
Laugardaginn 13. janúar kl. 14 bjóðum við ykkur velkomin á fyrstu opnun nýs sýningarárs í Hafnarborg en að þessu sinni verða opnaðar sýningarnar Flæðarmál, þar sem litið er yfir farsælan feril listakonunnar Jónínu Guðnadóttur, og Vísar, einkasýning myndlistarmannsins Þórs Sigurþórssonar sem mun sýna ný verk í Sverrissal safnsins.
Flæðarmál (13. janúar til 29. apríl 2024)
Jónína Guðnadóttir (f. 1943) hefur um árabil verið í framvarðarsveit íslenskra leirlistamanna og vakti snemma athygli fyrir einstaka nytjahluti. Hún hefur jafnframt þróað sjálfstætt myndmál í listaverkum sem bera þekkingu hennar á leirnum gott vitni um leið og einstakt formskyn og hugmyndauðgi eru áberandi. Ferill Jónínu hófst upp úr miðjum sjöunda áratugnum en þá hafði hún lagt stund á myndlistarnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Myndlistaskólann í Reykjavík og framhaldsnám í leirlist við Konstfack í Stokkhólmi.
Frá því að Jónína hélt sína fyrstu einkasýningu í Unuhúsi árið 1968 hafa verk hennar verið sýnd víða bæði hér heima og erlendis. Verk hennar hafa jafnframt verið sýnd reglulega í Hafnarborg síðustu áratugi. Þá spannar yfirlitssýningin Flæðarmál allan feril Jónínu, þar sem sýnt verður úrval af verkum listakonunnar, allt frá nytjahlutum sem hún vann á fyrstu árunum eftir útskrift til verka sem unnin voru á síðastliðnu ári. Samhliða sýningunni kemur svo út innbundin og ríkulega myndskreytt sýningarskrá með grein eftir sýningarstjórann og listfræðinginn Aðalheiði Valgeirsdóttur.
Vísar (13. janúar til 24. mars 2024)
Í verkum Þórs Sigurþórssonar (f. 1977) má finna viss leiðarstef – vísa – sem áhorfandanum er látið eftir að sjá hvert leiða hann. Þá vinnur listamaðurinn gjarnan með fundna hluti eða hversdagslega hluti sem hann setur í nýtt samhengi svo að óvæntar tengingar myndast þvert á tíma og rúm. Efniviðurinn inniheldur leifar af tíma og vekur upp vangaveltur um endurtekningu, hringrás og gang tímans. Skilningi okkar á hversdagslegum hlutum er þannig snúið á hvolf og okkur birtast naum en næm myndljóð, þar sem reynsla, skynjun og úrvinnsla vísa til hverfuls heims á mörkum ræðni og óræðni.
Þór Sigurþórsson lauk MFA-gráðu í myndlist frá School of Visual Arts í New York árið 2008. Hann hafði áður lokið BA-prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2002 og þá hefur hann einnig stundað nám við Academie der bildenden Künste í Vínarborg. Þór hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis, til að mynda í Ásmundarsafni og útisýningaröð Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík, Hjólinu. Hann hefur einnig haldið ýmsar einkasýningar, meðal annars í Y Gallery, Hverfisgalleríi og Harbinger. Árið 2015 hlaut Þór styrk úr sjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur.