top of page

Opnun – Ósýndarheimar og Ritaðar myndir

508A4884.JPG

fimmtudagur, 23. mars 2023

Opnun – Ósýndarheimar og Ritaðar myndir

Hafnarborg býður ykkur hjartanlega velkomin á opnun tveggja nýrra sýninga laugardaginn 25. mars kl. 14. Í aðalsal safnsins verður það annars vegar sýningin Ósýndarheimar, með verkum eftir Kristínu Helgu Ríkharðsdóttur, Meriem Bennani, Maríu Guðjohnsen, Bita Razavi, Helenu Margréti Jónsdóttur og Inari Sandell. Í Sverrissal er það svo sýningin Ritaðar myndir, með verkum eftir Jóhann S. Vilhjálmsson.

Ósýndarheimar, í sýningarstjórn Daríu Sólar Andrews, beina sjónum okkar að stafrænni list, ljósmyndun, hreyfimyndum, raunsæi og ofurveruleika. Listamennirnir takast hver um sig á við hugmyndir um raunveruleika og sýndarleika sem birtast í verkum þeirra, þar sem viðfangið er aftenging, kvíði og sú gráglettni sem einkennir þá kynslóð sem nú lifir og hrærist í umhverfi nýmiðlunar. Með því að beita fyrir sig stafrænum tjáningarmöguleikum draga þau fram satíruna sem felst í streituvaldandi lífsmynstri 21. aldarinnar, auk þess að gefa gaum að hvers kyns tilvistarkreppum, loftslagsvánni og hruni vistkerfa, mannlegu eðli og spillingu kapítalismans. Verk þeirra vekja jafnvel upp hugleiðingar um það hvernig veröld ofurveruleikans getur leitt til firringar og aftengdrar tilvistar.

Ritaðar myndir, í sýningarstjórn Erlings T. V. Klingenberg og Jóns Proppé, samanstendur af verkum eftir Jóhann S. Vilhjálmsson sem listamaðurinn vinnur á pappír og notar til þess ýmiss konar blek og liti. Áður hefur Jóhann unnið verk út frá myndum og verk sem teljast til abstraktstúdía á litasamsetningum og formum en síðustu árin hafa verk hans farið að líkjast æ meir síðum úr fallega lýstum miðaldahandritum. Þá má segja að verkin sameini myndskreyti, til dæmis drekaflúr og leturdálka á lituðum bakgrunni. Þegar betur er að gáð sjáum við hins vegar að það sem virðist letur er ekki á neinu þekktu ritmáli, heldur eru myndirnar til þess fallnar að við lesum í þær eitthvað sem kannski verður ekki komið í orð – að við lesum með ímyndunaraflinu.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page