Opnun – Óþekkt alúð og „Við sjáum það sem við viljum sjá“
fimmtudagur, 22. ágúst 2024
Opnun – Óþekkt alúð og „Við sjáum það sem við viljum sjá“
Fimmtudaginn 29. ágúst kl. 20 fögnum við opnun haustsýningar Hafnarborgar í ár, Óþekktrar alúðar, en sýningin er sú fjórtánda í haustsýningaröð Hafnarborgar sem hóf göngu sína árið 2011. Í tengslum við hátíðina List án landamæra munum við einnig fagna opnun einkasýningar Elínar Sigríðar Maríu Ólafsdóttur, „Við sjáum það sem við viljum sjá“, í Sverrissal Hafnarborgar en Elín var fyrr í ár útnefnd listamanneskja hátíðarinnar að þessu sinni.
Óþekkt alúð (29. ágúst til 27. október 2024)
Sýningin sprettur út frá þörfinni fyrir að finna töfra í heimi sem virðist að mörgu leyti vera göldrum firrtur, á tímum án bjartrar vonar. Þá eru fólgnir vissir töfrar í því að leyfa hlutum að vera það sem þeir eru án þess að þurfa að ná utan um þá, með tilheyrandi skilgreiningarþráhyggju. Listaverk geta til að mynda verið væmin og skörp á sama tíma, rétt eins og þau geta fangað þversagnir, sem við fyrstu sýn virðast þurfa að útiloka hver aðra en eru þegar öllu er á botninn hvolft óneitanlega tengdar hver annarri, svo sem sársauki og tilfinningalegur þroski, áföll og heilun, gleði og sorg. Þá er titill sýningarinnar tilkominn út frá hugsun um töfra sem fela í sér sameiginlega heilun og hugmynd um betri heim – en þessi óþekkta alúð skilgreinir veruleikann sem við lifum í á ýmsa vegu sem við getum ekki beinlínis komið orðum að. Þessi alúð er þó alltaf til staðar, þrátt fyrir að hún sé missterk þegar á móti blæs, og horfast þátttakendur sýningarinnar í augu við þessa alúð hver á sinn hátt.
Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Björg Þorsteinsdóttir, Sigríður Björnsdóttir, Suzanne Treister, Tabita Rezaire, Kate McMillan, Hildur Hákonardóttir, Ra Tack, Kristín Morthens, Tinna Guðmundsdóttir, Elsa Jónsdóttir, Juliana Irene Smith, Kata Jóhanness, Patty Spyrakos og Edda Karólína. Sýningarstjóri er Þórhildur Tinna Sigurðardóttir. Samhliða sýningunni er svo gefin út vegleg sýningarskrá með textum eftir sýningarstjóra og myndlýsingum eftir Eddu Karólínu, auk þess sem birt er ný grein eftir Hildi Hákonardóttur.
„Við sjáum það sem við viljum sjá“ (29. ágúst til 3. nóvember 2023)
Elín Sigríður María Ólafsdóttir (f. 1983) hefur stundað nám af ýmsu tagi, einkum þó listnám bæði hér heima og erlendis, þar á meðal diplómanám í myndlist fyrir fatlaða í Myndlistaskóla Reykjavíkur. Elín stundaði einnig myndlistarnám í Egmond-lýðháskólanum í Danmörku. Listaverk Elínar hafa birst víða bæði á einka- og samsýningum og einnig í bókum og í tímaritum. Elín hefur til dæmis haldið einkasýningu á Café Mokka, samstarfssýningu með Kristínu Gunnlaugsdóttur í Listasal Mosfellsbæjar á List án landamæra 2012 og tók þátt í sýningunni Áhrifavöldum í Safnasafninu árið 2022. Elín hefur jafnframt sýnt reglulega í samstarfi við List án landamæra, svo sem í Ráðhúsi Reykjavíkur og Gerðubergi.
Sköpunarkraftur og listhæfileikar Elínar komu snemma fram en ung að aldri var hún byrjuð að skapa listaverk í máli og myndum. Sömuleiðis hefur leiklist og skapandi tjáning á sviði verið stór þáttur í lífi Elínar en hún hefur starfað með leikhópnum Tjarnarleikhúsinu um árabil, gefið út ljóðabækur og unnið sjálf að öllum þáttum leiksýninga, svo sem leikmyndagerð og búningahönnun. Á þessari einkasýningu listakonunnar getur að líta úrval verka sem spanna feril hennar frá upphafi. Efnistök í verkum Elínar eru jafnan ævintýraleg og vinnur hún gjarnan með sjálfið á mismunandi hátt í myndheimi sínum. Elín hvetur gesti sýningarinnar til að nota ímyndunarafl sitt á sýningunni og jafnvel búa til stuttar sögur eða ljóð sem tengjast myndverkunum. Þá gefst gestum sýningarinnar færi á að stíga á stokk og fara með ljóð eða æfa upplestur af einhverju tagi á meðan sýningunni stendur – í samtali við skapandi vinnu Elínar.
Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.