Opnun Þulu Hafnartorg: Einkasýning Kristínar Helgu Ríkhar ðsdóttur - Data gígar

miðvikudagur, 16. apríl 2025
Opnun Þulu Hafnartorg: Einkasýning Kristínar Helgu Ríkharðsdóttur - Data gígar
Þula Hafnartorg, annað rými Þulu sem opnar laugardaginn 19. apríl 15-18. Opnunarsýningin er Data gígar, einkasýning Kristínar Helgu Ríkharðsdóttur.
Kristín Helga Ríkharðsdóttir lauk BA námi frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2016 og MFA námi í myndlist við New York University Steinhardt í janúar 2022. Meðan Kristín var í LHÍ fór hún í skiptinámi í Universität der Künste Berlin, og síðar í starfsnám til Berlínar árið 2017. Frá því Kristín útskrifaðist frá LHÍ hefur hún verið virk í sýningahaldi bæði hérlendis og erlendis. Vídeóverk eftir hana hafa unnið til verðlauna á kvikmyndahátíðum og tónlistarmyndband eftir Kristínu var tilnefnt til Íslensku Tónlistarverðlaunanna 2019. Kristín hef tekið þátt í félagsstörfum myndlistarmanna, var í varastjórn Nýlistasafnsins árin 2018-2020, var í hópi sýningarstjóra fyrir sýningaröðina ,,Rólegt og Rómantískt” í Harbinger árið 2019 og hefur verið hluti af Kling og Bang hópnum frá 2020. Sýninguna Data gígar vann hún að miklu leiti í vinnustofudvöl sinni í ISCP í New York sumarið 2024 og færir okkur inn í stafrænan heim neonlita og jarðhræringa.
"Við gerð málverkanna nota ég þrívíddarforrit til að skapa myndir sem eru svo ofin stafrænt og strekkt á ramma. Ég nota akríl-resínmálningu til að bæta við þrívídd í verkunum ásamt fundnum textíl og hlutum.
Ég byrjaði á þessari málverkaröð árið 2021 þegar ég var í mastersnámi í New York. Þá hófst eldgos á Reykjanesi, og ég heillaðist af því að fylgjast með því í beinu streymi og fréttum. Þegar ég sá gosið loks í eigin persónu varð ég vitni að litríkum, neonlituðum hraunstrókum sem sprungu úr jörðinni og mynduðu nýtt fjall. Sú óraunverulega tilfinning sem ég upplifði við þennan dýnamíska og umbreytandi náttúruatburð varð innblástur fyrir málverkin. Eldgosið minnti mig á stafræna heima, þar sem stöðug sköpun og eyðing eiga sér stað – líkt og hraunflæði sem endurskrifar landslagið.
Síðan þá hef ég unnið að seríunni með hléum, þar sem eldgos virðast hafa orðið að hluta af íslenskum hversdagsleika. Myndmál verkanna tekur meðal annars til iStock-mynda, stærðfræðitákna, lottókúla, tilvísana í landslagsmálverk og fjölfeldni. Smáar manneskjur sjást oft í myndunum, horfandi á eldgosið með dýrkunarfullri forvitni, þar sem eldgosið táknar bæði sköpun og eyðingu."
Þula opnar sitt annað sýningarrými á Hafnartorgi við Bryggjugötu, – vettvang sem sameinar sýningarrými og faglega ráðgjöf. Reglulegar sýningar verða haldnar í gallerí hluta Þulu Hafnartorg auk ýmisa uppákoma yfir árið. Auk þess býðst einstaklingum og fyrirtækjum sérsniðin þjónusta við val á listaverkum með það að markmiði að efla tengingu fólks við myndlist og auðvelda aðgengi að vönduðu listaverkavali í sýningarrými Þulu Hafnartorg. Við munum einnig bjóða upp á ráðgjöf og aðstoð við upphengi á listaverkum.
Þula er rótgróið gallerí með yfir tíu ára reynslu í að kynna og styðja bæði viðurkennda og upprennandi listamenn á sviði samtímalistar. Frá stofnun árið 2013 sem Hverfisgallerí og með sameiningu í Þulu árið 2023, hefur galleríið markvisst unnið að því að skapa vettvang fyrir framúrskarandi myndlist og dýpka skilning á þróun samtímalistar á Íslandi.
Aðalrými Þulu er staðsett í Marshallhúsinu í Reykjavík, þar sem reglulegar sýningar eru haldnar yfir árið í samstarfi við listamenn gallerísins ásamt öðrum valinkunnum listamönnum.