top of page

Opnun í Ars longa & bókakynning - Sigurður Guðmundsson

508A4884.JPG

miðvikudagur, 5. júlí 2023

Opnun í Ars longa & bókakynning - Sigurður Guðmundsson

Annað árið í röð kemur saman breiður hópur listafólks og sýnir verk sín í ARS LONGA á Djúpavogi. Á sýningunni, sem ber yfirskriftina hvað var – hvað er – hvað verður?, eru verk 16 íslenskra samtímalistamanna sett upp í safninu yfir sumartímann.

ARS LONGA er sjálfstætt listasafn sem hóf starfsemi sína með sýningu Sigurðar Guðmundssonar, Alheimurinn er ljóð, sem fór fram í Bræðslunni sumarið 2021 en Sigurður gaf öll verk sýningarinnar í safneignina. Aðdragandann að safninu má þó rekja til Eggjanna í Gleðivík eftir Sigurð og sýninga Rúllandi snjóbolta í Bræðslunni.

Stofnun sjálfstæðs samtímalistasafns á Djúpavogi er metnaðarfull framkvæmd og á sér ekki hliðstæðu hér á landi. Víðsvegar um heim má þó finna fordæmi slíkra stofnana þar sem söfn eða tiltekin listaverk í þeirra eigu verða lykilþáttur í aðdráttarafli áfangastaðarins. Metnaður er lagður í að safna og varðveita listaverkaeign eftir bæði íslenska og alþjóðlega listamenn og fjölbreytt sýningahald verður mikilvæg viðbót við menningarlandslagið á Austurlandi, um leið og safninu er ætlað að vera leiðandi vettvangur alþjóðlegrar samtímalistar á
landinu öllu.

ARS LONGA er lifandi vettvangur fyrir samtímalist og framlög listamannanna í ár eru fjölbreytt, bæði í efni og inntaki verkanna. Núverandi ástand húsnæðisins setur takmarkanir á hvað er mögulegt að sýna en gert er ráð fyrir stórfelldum endurbótum á húsnæðinu á komandi árum. Stofnendur safnsins, Sigurður Guðmundsson og Þór Vigfússon, í samvinnu við sitjandi stjórn safnsins, vinna að endurhönnun byggingarinnar sem unnin verður í áföngum samhliða sýningarhaldi yfir sumartímann á komandi árum.

Að hluta til tilheyra verk sýningarinnar sístækkandi safneign ARS LONGA. Má þar nefna nokkur lykilverk íslenskrar listasögu: verk Sigurðar Guðmundssonar, Galti, a nice girl and a boy, frá 1969, og tvö verk Kristjáns Guðmundssonar, Vörðubrot, sem sýnt var á útisýningunni á Skólavörðuholti árið 1970, og Þríhyrningur í ferningi frá 1971–72. Verkin hafa listamennirnir nýverið fært safninu að gjöf, sem styður við mikilvægi safneignarinnar sem ómetanlegs menningararfs til frambúðar.

Titill sýningarinnar, hvað var – hvað er – hvað verður?, kemur frá latneska hugtakinu ‘quid est’, sem vísar í essens eða kjarna hlutanna og heimspekilegar vangaveltur, ekki einungis um rökrétta sýn á fortíð, nútíð og framtíð, heldur einnig hið óræða, líkt og falinn þríhyrningur í verki Kristjáns sem greinir sig aðeins frá ferningnum með blessun moldarinnar.

Sýningin er sett upp með stuðningi frá Múlaþingi, Myndstef og Myndlistarsjóði.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page