Opnun ársins í Menningarhúsi í Sigurhæðum á Akureyri
fimmtudagur, 25. maí 2023
Opnun ársins í Menningarhúsi í Sigurhæðum á Akureyri
Laugardaginn 27. maí opnar sýning ársins 2023 í Menningarhúsi í Sigurhæðum á Akureyri. Á aðalhæð hússins hefur verið sett upp heildasýning með verk eftir Guðnýju Rósu Ingimarsdóttur myndlistarmann. Hér stíga einnig fram þau William Morris, May Morris og Arts and Crafts hreyfingin, rithöfundurinn Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum, skáldkonan Kristín Sigfúsdóttir, sem og frumábúendur staðarins, Guðrún Runólfsdóttir og Matthías Jochumsson og þeirra fólk.
Dagskrá opnunarinnar hefst klukkan 13 með ávarpi Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingmanns. Þá verður hringbekkur eftir listasmiðinn Helga Þórsson í Kristnesi afhjúpaður undir reyniviðnum sunnan við hús. Kynnir er Vilhjálmur B. Bragason. Klukkan 14 spjallar Hlynur Hallsson við Guðnýju Rósu um verkin í Sigurhæðum og nýútkomið Pastelverk hennar. Þá verður boðið upp á leiðsögn um sýninguna og húsið klukkan 15.
Sigurhæðir eru opnar til klukkan 17 þennan dag en eftir það daglega til og með 11. nóvember.