Opnun: Venjulegar myndir í Gerðarsafni
fimmtudagur, 8. febrúar 2024
Opnun: Venjulegar myndir í Gerðarsafni
Verið velkomin á opnun sýningarinnar Venjulegar myndir í Gerðarsafni laugardaginn 10. febrúar kl. 15:00.
Við lærum að sjá. Í fyrstu er heimurinn í móðu en tekur síðan á sig skýrari mynd, litir skerpast, rýmisskynjun vaknar. Sjónin byggir á reynslu okkar af heiminum. En hvað gerist þegar listin snýr upp á reynsluna? Þegar ljósmynd sýnir eitthvað sem aldrei var, mýkt reynist hörð, höggmyndin flöt og jarðtengingin leysist upp. Venjulega staði er að finna í hinum sýningarsalnum en hér spyr sýningarheitið hvað sé venjulegt, eru þetta venjulegar myndir?
Það er engin skíðabrekka á sýningunni, engin smjörstytta, enginn fljúgandi diskur. Samt eru verkin öll brot úr heiminum, brenglað afrit. Ný augnablik hafa skapast, þessar myndir sanna ekkert heldur tala til skynfæra okkar og innsæis, leitast við að leysa ljósmyndina úr viðjum þyngdaraflsins og rugla áhorfandann bókstaflega í rýminu.
Hér eru ljósmyndir Ívars Brynjólfssonar í samtali við verk Kristínar Sigurðardóttur, Lukasar Kindermann, Ragnheiðar Gestsdóttur og Tine Bek; myndlist sem sprettur úr túlkun mannverunnar á umhverfi sínu. Listamennirnir eiga það sameiginlegt að brengla hversdaginn, snúa upp á venjuleikann og biðla til áhorfandans að túlka á sinn veg.
Fyrri fasi sýningarinnar, Venjulegir staðir, opnaði 13. janúar þar sem sýnd eru verk eftir Ívar Brynjólfsson, Emmu Heiðarsdóttur, Haraldar Jónssonar, Joe Keys og Tine Bek.