top of page

Opinber skúlptúr vígður á Siglufirði

508A4884.JPG

þriðjudagur, 8. ágúst 2023

Opinber skúlptúr vígður á Siglufirði

Laugardaginn 29. júlí afhjúpaði forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir listaverkið Síldarstúlkan eftir Arthur Ragnarsson. Verkið hefur notið mikilla vinsælda meðal almennings og um þúsund manns höfðu safnast saman meðfram hafnarbakkanum til að taka þátt í vígslu verksins.

Í ávarpi sínu fagnaði forsætisráðherra löngu tímabærum minnisvarða um ótrúlegt framlag síldarstúlknanna til íslensks efnahagslífs og ekki síður til jafnréttisbaráttunnar og kjarabaráttu kvenna. Einnig lagði forsætisráðherra áherslu á að saga síldarstúlknanna er líka saga kvennabaráttu á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi. Hér væri því verið að vígja femínískt listaverk.

Verkið er smíðað af SR-vélaverkstæði á Siglufirði eftir frummyndum listamannsins Arthurs Ragnarssonar sem er borinn og barnfæddur Siglfirðingur en hann hafði umsjón með smíðinni. Verkefnið á upptök sín í fjölskyldutengslum listamannsins því á Siglufirði stóð móðir hans og báðar ömmur hans og söltuðu síld í tunnur baki brotnu á síðustu öld. Kraftur og úthald kvennanna sem tóku þátt í þessum síldartörnum var að leiðarljósi við gerð listaverksins.

Almenningur hefur getað fylgst með vinnuferlinu í rauntíma á Facebook-síðu verkefnisins og á vef
listamannsins https://www.arthurra.se/Projects.html. Þar má skoða gerð frummynda, smíðavinnuna hjá SR-vélaverkstæði og bryggjusmíðina.

Ríkisstjórn Íslands styrkti gerð listaverksins ásamt einkaaðilum. Við afhjúpunina var listaverkið afhent Fjallabyggð og Síldarminjasafni Íslands til varðveislu.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page