Opin vinnustofa gestalistamanna Listasafnsins á Akureyri
fimmtudagur, 22. ágúst 2024
Opin vinnustofa gestalistamanna Listasafnsins á Akureyri
Undanfarnar vikur hefur myndlistarfólkið Marius van Zandwijk og Andrea Weber dvalið í gestavinnustofu Listasafnsins á Akureyri. Laugardaginn 24. ágúst kl. 15-18 verður vinnustofan opin og má þá sjá afrakstur vinnu þeirra síðustu vikur.
Hollenski myndlistarmaðurinn Marius van Zandwijk býr og starfar í Amsterdam í Hollandi. Samtenging náttúru og menningar er stór þráður í listsköpun hans. Hann kannar þessa samtengingu í gegnum áþreifanlega reynslu og sögur. Frá 2020 hefur van Zandwijk stundað rannsóknir á alaskalúpínu á Íslandi. Í opnu vinnustofunni sýnir hann þrívíddarverk og málverk á pappír.
Marius van Zandwijk er með gráðu í myndlist frá Gerrit Rietveld Academy í Amsterdam og hafa verk hans m.a. verið sýnd í Bijbels Museum, Arti et Amicitiae og Stedelijk Museum í Amsterdam, Kunsthalle Kohta í Helsinki og SÍM-Gallery í Reykjavík.
Í listsköpun sinni vinnur hin fransk-þýska Andrea Weber mikið með hugmyndir um tíma og rúm og sambandið milli líkama og umhverfis. Til þess notar hún málverk, ljósmyndir og gjörningalist.
Síðasta áratug hefur Weber sótt innblástur í einstakar aðstæður eyjunnar sem og flutninga þangað. Í dvöl sinni á gestavinnustofunni ögraði hún hugmyndinni um eigin endurkomu til eyjunnar og hvernig ætti að halda skrá yfir landslagið án þess að taka neitt frá því.
Í ferlinu vinnur Weber með ólíkar aðferðir eins og abstrakt, frottage og vefnað, en núverandi uppsetning hennar er tilraun til að umlykja þætti eyjunnar. Hún er menntuð í ljósmyndun frá listaháskólanum í Essen og Beaux Arts í París.