top of page

Opið fyrir umsóknir um vinnustofudvöl í Künstlerhaus Bethanien 2024-2025

508A4884.JPG

fimmtudagur, 31. ágúst 2023

Opið fyrir umsóknir um vinnustofudvöl í Künstlerhaus Bethanien 2024-2025

Myndlistarmiðstöð auglýsir eftir umsóknum um árslanga vinnustofudvöl í Künstlerhaus Bethanien, Berlín, frá íslensku myndlistarfólki og myndlistarfólki sem hefur sterka tengingu við íslenskt listalíf. Dvalartímabil er frá 1. maí 2024 – 15. apríl 2025.

Umsóknarfrestur er til og með 11. september 2023, kl. 23:59.

Künstlerhaus Bethanien var stofnað árið 1974, og er ein rótgrónasta og virtasta stofnun Þýskalands á þessu sviði. Að jafnaði starfa um 25 listamenn víðsvegar að úr heiminum við miðstöðina, sem býður upp á alþjóðlegt tengslanet og samstarf innan samtímamyndlistar. Dvölin veitir listamönnum sem þar dvelja aðgengi að öflugu, alþjóðlegu tengslaneti; sýningarstjórum, safnafólki, blaðamönnum og öðrum sem starfa innan geirans. Auk þess heldur stofnunin utan um sýningarhald, útgáfu og ýmsa viðburði fyrir listamennina sem þar dvelja. Á meðan vinnustofudvöl stendur heldur hver listamaður einkasýningu á vegum Künstlerhaus Bethanien. Boðið er upp á einkavinnustofu sem er 40 m2 að stærð og fullan aðgang að verkstæðum og bókasafni. Listamaður hefur kost á því að búa á vinnustofunni óski hann þess, en þar er til staðar eldhúskrókur og rúm.

Áhersla verður lögð á að bjóða listamönnum til dvalarinnar sem hafa verið starfandi í þónokkurn tíma og hafa áhuga á því að leita tækifæra utan landsteinanna. Gert er ráð fyrir að viðkomandi listamenn hafi sýnt á söfnum og viðurkenndum sýningarstöðum hérlendis og erlendis. Innifalið í styrknum eru dvalargjöld, handhafi styrksins þarf að dekka ferðakostnað og uppihald.

Forval á umsóknum verður í höndum fagráðs Myndlistarmiðstöðvar, en lokaval á myndlistarmanneskju verður í höndum Künstlerhaus Bethanien.

Umsóknareyðublaðið er aðgengilegt á vefsíðu Myndlistarmiðstöðvar: https://myndlistarsjodur.eydublod.is/Forms/saml2/KB-2023?sub=myndlistarsjodur

Umsóknin og umsóknargögn þurfa að vera á ensku. Með umsókninni þurfa að fylgja eftirfarandi gögn:
- Kynningarbréf og stutt greinargerð á því hvernig listamaður hyggst nýta sér dvölina, markmið og væntingar.
- Ferilskrá
- Ferilmappa
- Meðmælabréf, greinar og fjölmiðlaumfjöllun, valfrjáls.

Dvölin er fjármögnuð af Menningar- og viðskiptaráðuneytinu og Viljandi, minningarsjóði.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page