Opið fyrir umsóknir: Haustsýning Nýló 2025
fimmtudagur, 5. september 2024
Opið fyrir umsóknir: Haustsýning Nýló 2025
Nýlistasafnið kallar eftir umsóknum frá listamönnum og/eða sýningarstjórum um haustsýningu safnsins árið 2025. Kallað er eftir sýningartillögum og koma bæði einka- og samsýningar til greina. Í umsókninni þarf að gera grein fyrir þeim listamönnum sem taka þátt ásamt þeim hugmyndum sem sýningin er unnin út frá. Valnefnd skipar stjórn Nýló og mun safnið veita faglegan og listrænan stuðning í sýningarundirbúningnum. Við hvetjum alla til að sækja um óháð félagslegri stöðu, bakgrunni, kyni, kynhneigð, þjóðerni eða aldri.
Tekið er við umsóknum til kl. 16:00 þann 20. september 2024.
Umsóknum verður svarað fyrir lok september 2024. Hér fyrir neðan má lesa nánari upplýsingar um umsóknarferlið.
Sótt er um sýningu í ágúst/september 2025 í sýningarsal Nýlistasafnsins, Marshallhúsinu. Hér má skoða teikningu af salnum og hér er hægt að fletta í gegnum myndir af rýminu tómu. Athugið að hlekkirnir eru aðeins til glöggvunar, ekki er gert ráð fyrir sýningin sé full mótuð á þessu stigi.
Umsókn skal innihalda:
# 1 — Nafn umsækjanda, tölvupóstfang, símanúmer og fæðingardag.
# 2 — Lýsing á verkefninu þar sem gerð er grein fyrir þeim hugmyndum sem sýningin er unnin út frá. Hámark 1 bls.
# 3 — Fimm myndir af fyrri verkum þeirra listamanna sem taka þátt. Fyrir tímatengd verk, vídeó eða hljóðverk skal setja inn hlekk sem leiðir beint á Vimeo, Youtube eða álíka veitur og ekki sem skrá í gegnum tölvupóst.
# 4 — Ferilskrár þátttakenda, hámark 1 bls hver.
#5 — Séu umsækjendur með aðsetur utan Íslands, þarf að fylgja útlistun og áætlun eða listi yfir fyrirhugaða styrksjóði varðandi fjármögnun á liðum tengdum flutningi verka, ferða, gistikostnaðar og annars tengdum kostnaði.
Frestur til að senda inn umsókn er til kl. 16:00 þann 20. september 2024.
Umsóknir sendist á nylo(hjá)nylo.is merktar opencall_2024 Ekki verður tekið við útprentuðum umsóknum. Fyrirspurnir sendist á sama netfang. Senda skal umsóknir og allt efni sem þeim viðkemur í einu samhangandi PDF skjali. Skjölin mega ekki vera stærri en 10 MB. Umsóknir sem ekki fara eftir umbeðnum kröfum og leiðbeiningum eða í vantar einhver gögn verða ekki teknar til greina.
Framlag Nýlistasafnsins:
— Þóknun listamanna fyrir sýningunni (samkv. 3 flokki framlagssamnings SÍM) og þátttöku í einu listamannaspjalli/leiðsögn.
— Kynning sýningar á miðlum safnsins og samskipti við fjölmiðla
—Verkefnastjórnun og listrænn stuðningur, eftir þörfum
— Aðstoð við uppsetningu
— Ljósmyndun sýningar
— Umsóknarskrif og aðstoð við fjármögnun
Nýlistasafnið aflar styrkja í gegnum verkefnastyrki fyrir öllum verkþáttum sýninga og tekur endanlegur sýningar-rammi mið af því fjármagni sem safnast. Safnið getur ekki kostað eða sótt í sjóði fyrir ferðakostnaði eða uppihaldi listamanna með aðsetur utan Íslands eða utan höfuðborgarsvæðisins.
Valferli:
Stjórn Nýlistasafnsins velur úr umsóknum og verður niðurstaða tilkynnt fyrir septemberlok 2024.
Markmið:
Undanfarin ár hefur skapast hefð fyrir því að Nýlistasafnið sendi frá sér opið kall um haustsýningu safnsins. Sniðmátið hefur verið á ýmsa vegu, tilgangurinn með því að stokka upp og endurskoða umsóknarrammann hverju sinni er að tryggja að safnið sinni áfram sínu hlutverki sem vettvangur grasrótar, sem kynnir fjölbreyttar og óvæntar sýningar í takt við samtímann. Markmiðið með því að leita út á við og kalla eftir umsóknum er að víkka út sjóndeildarhring stjórnar og kynnast og kynna fjölbreytileika íslenskrar myndlistar.
Nýlistasafnið leggur áherslu á fjölbreytileika sjónarhorna, framsækni og tilraunir í listsköpun, framsetningu og miðlun. Í takt við sögu safnsins leitast Nýló við að opna augu almennings fyrir afstæðri fagurfræði samtímalistar og breyttum viðfangsefnum myndlistarmanna í samtímanum, sem oft haldast í hendur við málefni líðandi stundar. Tekið er mið af fjölbreytileika sýnenda og hvetjum við alla til að sækja um, óháð kyni, kynhneigð, stétt, þjóðerni eða aldri.