top of page

Open: TakeCareGiveCareDontCare -Hrafnhildur Helgadóttir

508A4884.JPG

föstudagur, 25. mars 2022

Open: TakeCareGiveCareDontCare -Hrafnhildur Helgadóttir

Hrafnhildur Helgadóttir
TakeCareGiveCareDontCare

Föstudag 25. mars opnar einkasýning Hrafnhildar Helgadóttur, TakeCareGiveCareDontCare í OPEN, Grandagarði 27. Publik Universal Frxnd mun spila villta tóna.
Verið hjartanlega velkomin!

Það er vetur. Kalt úti. Heitt inni. Móða á gluggum og einhver hefur dregið útlínur Andrésar Andar á glerið. Rökkrið er brúnleitt og birtan inni er gullin. Trégólfið er klístrað og lyktin er marglaga sambland af fúkka og þegar einhver hefur aðeins of oft reynt að þrífa bjórslettur með Ajax. Vínrauð gólfmotta liggur yfir barborðinu. Við sækjum okkur vaasjes í örmjóum glösum og froðan vellur upp úr og skvettist á gólfið þegar við berum þá að tréborðinu þar sem við sitjum, höfum setið dálitla stund og ætlum að sitja aðeins lengur. Hrá pulsa, fúll ostur og eiturgult sinnep sem kitlar og klípur í nefið. Sígarettureykur og fjólublár hringur á borði eftir rauðvínsglas. Kuldahrollur á bakinu og hárið er skítugt því sturtan hefur verið frosin í heila viku. Það berst kliður innan úr salnum sem liggur lengra innar á barnum. Fólk, mest karlar, skiptast á að þegja og æpa upp yfir sig, ýmist af gleði eða svekkelsi. Þeir eru að spila pílu.

Hverjir eru snertifletir íþrótta og myndlistar? Fyrir utan misfallega verðlaunagripi sem fólk er heiðrað með þegar það hlýtur nafnbótina íþróttamaður ársins? Fagurfræði er lykilatriði í hvorutveggja, sem veitir bæði íþróttum og myndlist umgjörð, og skapar aðdráttarafl sem laðar að áhorfendur, í sumum tilfellum dáleiðir þá svo þeir gleyma sér um stund. En er píla raunveruleg íþrótt eða aðeins smásálarleg dægrastytting sem menn iðka á börum? Er píla hið fullkomna antí-sport? Skiptir það máli í þessu samhengi?

Á sýningunni Take Care Give Care Don‘t Care hefur Hrafnhildur Helgadóttir afbyggt píluspjaldið og breytt því í málverk, leyft hringlaga forminu að ráða för og dregið upp mynstur sem minna stundum á rómverskar rósettur eða plánetur með ósléttu yfirborði. Óslitnar keðjur, hringir, þarmar. Og pílan hefur umbreyst og er orðin að lifandi blómi sem stendur beint út úr píluspjaldinu. Á hvítum fleti eru stálgrindurnar sem áður færðu spjöldunum fúnktion sína og mynduðu formfasta fagurfræði pílukastsins. Að hverju verða þau svona berstrípuð og umkomulaus? Tveir gestir og áhrifavaldar í lífi Hrafnhildar eru með innkomu á sýningunni; í einu horninu má sjá svartan fegurðarblett Hreins Friðfinnssonar, en annarsstaðar hefur Rúna Þorkelsdóttir raðað þurrkuðum laufum í mandölu.

Hrafnhildur Helgadóttir býr og starfar í Amsterdam. Hún stundaði BA nám í myndlist við Gerrit Rietveld Academie og útskrifaðist með MA gráðu frá Sandberg Instititut árið 2014. Hún starfaði um árabil með þeim Jan Voss, Henriëtte van Egten og Rúnu Þorkelsdóttur í Boekie Woekie bókverkabúðinni við Berenstraat, en stýrir í dag stúdíói Hreins Friðfinnssonar, ásamt því að kenna myndlist við Gerrit Rietveld Academie. Academie. Á síðustu árum hefur hún helst fengist við internetlist, ekki síst sem meðlimur í kollektífinu Hard-core (2010-2020), en eins og margir á tímum veirulífs fékk hún nóg af skjám og stafrænum miðlum, þráði að finna fyrir efni á höndum og fingrum, og fór því að mála.
Vera Knútsdóttir

Hrafnhildurhelgadottir.info
Instagram.com/object_sea

OPNUNARTÍMAR SÝNINGAR // OPENING HOURS:

Föstudagur / Friday – 25. mars kl. 17.00 - 21:00
Laugardagur / Saturday – 26. mars kl. 13.00 - 17:00
Sunnudagur / Sunday – 27. mars kl. 13.00 - 17:00
Laugardagur / Saturday – 2. apríl kl. 13.00 - 17:00
Sunnudagur / Sunday – 3. apríl kl. 13.00 - 17:00

OPEN er styrkt af Reykjavíkurborg og Myndlistarsjóði.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page