Nýlistasafnið: Stefnumót við sjálfið - Ásdís Sif Gunnarsdóttir
þriðjudagur, 25. janúar 2022
Nýlistasafnið: Stefnumót við sjálfið - Ásdís Sif Gunnarsdóttir
Nýlistasafnið I The Living Art Museum
Sýning
27.01.-06.03.2022
Verið hjartanlega velkomin á sýningu Ásdísar Sifjar Gunnarsdóttur, sem jafnframt er fyrsta sýning ársins í Nýlistasafninu. Stefnumót við sjálfið er opin frá og með fimmtudeginum langa, 27. janúar og stendur til 6. mars. Það má segja að sýningin mótist yfir sýningartímann, þar sem Ásdís mun vera með upptökur í rýminu, streymisgjörninga og aðrar uppákomur.
Á opnunardegi er sýningin opið frá kl. 17—21.
Stefnumót við sjálfið er fundarstaður. Vettvangur þar sem vídeóverk, ljósmyndir og gjörningar; augnablik frá mismunandi tímum á ferli Ásdísar, fléttast saman í margbrotna heild. Erkitýpur úr framtíðinni birtast á ögurstundu, grafnar minningar skjótast upp á yfirborðið og ólgandi frásagnir brjóta sér leið í gegnum myrkrið og inn undir húðina. Í verkunum sameinast ljóð og myndir, einkalíf og opinber rými, tækni og náttúra, óvissa og áhyggjuleysi.
Ásdís Sif Gunnarsdóttir (f. 1976) býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist með BFA gráðu frá School of Visual Arts í New York árið 2000 og MA gráðu frá University of California, Los Angeles, árið 2004 með áherslu á vídeó- og gjörningalist. Ásdís Sif hefur frá upphafi ferils sýnt bæði á einka- og samsýningum víða innanlands og á alþjóðavettvangi, meðal annars í Listasafni Akureyrar, Hverfisgallerí, Listasafni Reykjavíkur, Centre Pompidou (París, Frakklandi) og Tate Gallery (London, Bretlandi).