Nýlistasafnið: IMMUNE/ÓNÆM

föstudagur, 18. mars 2022
Nýlistasafnið: IMMUNE/ÓNÆM
Verið hjartanlega velkomin á opnun sýningarinnar IMMUNE/ÓNÆM í Nýlistasafninu, laugardaginn 19.mars kl. 16—19. Á sýningunni veltir fjölbreyttur hópur listamanna meðal annars fram hugmyndum um nýlendusögu Norðursins, birtingarmyndir hvítleika, íslenska bananann, hnattræna hlýnun, saltfisk, verslunarleiðir og náttúruna.
IMMUNE/ÓNÆM er afrakstur tveggja ára rannsóknar- og samstarfsverkefnis 11 alþjóðlegra listamanna, hönnuða, fræðimanna og sýningarstjóra, sem fjallar um afnýlenduvæðingu, hinsegin vistkerfi, vinnsluauðvald og þjóðarímyndunarsköpun út frá sameiginlegum upphafspunkti: Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar og myndinni sem þar er dregin fram af náttúrunni.
Hópurinn kemur úr ýmsum áttum og er eitt af leiðarstefum verkefnisins að nota Ísland, þessa einangruðu eyju og vistkerfi, sem flöt til að varpa á hugleiðingum um pólitíska, samfélagslega og efnahagslega þætti sem varða náttúruna.
Ríkuleg viðburðadagskrá mun fara fram samhliða sýningunni, svo sem vinnustofur, gjörningar og opnar samræður. Strax daginn eftir opnun, sunnudaginn 20.mars verður listamannaspjall kl. 14.
Að tilefni sýningarinnar verður Steinunn Gunnlaugsdóttir og Bryndís Björnsdóttir með verk og gjörð hluta af sýningartímanum, fyrir framan Marshallhúsið.
Sýningin stendur til 1. maí 2022.
www.immuneonaem.com


