top of page

Ný og ferskari Stockfish

508A4884.JPG

fimmtudagur, 26. janúar 2023

Ný og ferskari Stockfish

Ný áhöfn/nýtt crew
Hrönn Kristinsdóttir er nýr listrænn stjórnandi Stockfish og hún ásamt Carolina Salas framkvæmdastjóra hátíðarinnar, mun halda áfram að þróa Stockfish sem gott rými fyrir samtal greinarinnar á opnum og faglegum nótum. Vettvang sem ýtir undir áhorf og umræðu um fjölbreytta og fjölþjóðlega nýsköpun í kvikmyndagerð og gerir hana aðgengilega almenningi.

Stockfish er hátíð sem opnar tækifæri fyrir fagfólk bæði hér- og erlendis. Áhersla er lögð á að fagmennska, gagnsæi og lýðræði séu í hávegum höfð í starfsemi hátíðarinnar. Stjórn hátíðarinnar er skipuð 6 aðilum frá hagsmunafélögum úr greininni, þeim Antoni Mána Svavarssyni (SÍK) Arnari Þórissyni (FK) Kristínu Andreu Þórðardóttur(SKL), Ragnari Bragsyni (RSÍ), Tómasi Erni Tómassyni (ÍKS) og Þórunni Lárusdóttur (FÍL).

Í gegn um árin hefur Stockfish, í nánu samstarfi við Kvikmyndamiðstöð Íslands , Reykjavíkurborg og Bíó Paradís, fest sig í sessi sem áhugaverður og öflugur tíu daga viðburður sem tengir saman innlent og erlent fagfólk en býður almenningi jafnframt innsýn í það nýjasta og ferskasta úr kvikmyndaheiminum.

Verk í vinnslu
Að vanda verður boðið upp á „Verk í vinnslu“ þar sem sýnt verður frá nýjum og spennandi íslenskum kvikmyndum og sjónvarpsefni sem eru enn í framleiðslu. Atburðinum verður einnig streymt beint fyrir þá sem hafa ekki tök á að mæta á staðinn. Tilgangurinn er að kynna verkin fyrir mögulegu samstarfsfólki, sölu-og dreifingaraðilum sem og kvikmyndahátíðum.

Fókus á fagið
Að þessu sinni mun Stockfish bjóða sendinefnd, fagfólki og kvikmyndum frá Slóvakíu til þátttöku á hátíðinni. „Fókus á fagið“ (Industry Focus) sem verður árlegur viðburður þar sem eitt land er í brennidepli hvert ár. Í ár er Slóvakíu fókusinn í samvinnu Kino Usmev og Bíó Paradís.

Heiðursverðlaun í fyrsta sinn
Í fyrsta sinn mun Stockfish nú veita heiðursverðlaun fyrir „Framúrskarandi framlag til kvikmyndaiðnaðarins,“ þar sem fagmanneskja úr kvikmyndafræðum, -framleiðslu, -dreifingu, markaðsmálum eða kvikmyndahátíð, hlýtur verðlaun.

Framtíðarfólkið
Stuttmyndakeppnin Sprettfiskur verður á sínum stað en þar keppa um 20 stuttmyndir í fjórum flokkum: Besta stutta frásögnin, besta stutta heimildarmyndin, besta tónlistarmyndbandið og besta stutta tilraunamyndin. Vinningsmyndirnar hljóta vegleg verðlaun og möguleika á dreifingu hérlendis. Meginmarkmið Sprettfisks er áhersla á kynningu og uppgötvun nýs hæfileikafólks sem og að auðvelda þeim næstu skref í kvikmyndagerð. Umsóknarfrestur verður auglýstur síðar.

Hreyfimyndahátíðin á sínum stað
Annað hvert ár í seinni tíð hefur Physical Cinema (Hreyfimyndahátíð) sett svip sinn á Bíó Paradís og miðbæ Reykjavíkur í tengslum við Stockfish undir stjórn Helenu Jónsdóttur. Gestir Stockfish og aðrir eiga því von á skemmtilegum uppákomum víðsvegar um borgina á meðan á hátíðinni stendur.

Fagfólk og stjörnur sitja fyrir svörum
Stockfish mun einnig standa fyrir metnaðarfullri dagskrá fyrir almenna hátíðargesti og sýna valdar alþjóðlegar verðlaunamyndir auk ýmissa sér- og yfirlitssýninga. Að vanda munu leikstjórar/aðstandendur myndanna fylgja myndum sínum eftir og sitja fyrir svörum að sýningum loknum.

Á dagskrá Stockfish frá 23.mars -2.apríl 2023 verða sýndar í Bíó Paradís um 25 hágæða, nýjar alþjóðlegar verðlaunamyndir sem ekki hafa verið sýndar hér áður.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page