top of page

Næturútvarp á Svavarssafni

508A4884.JPG

fimmtudagur, 26. október 2023

Næturútvarp á Svavarssafni

Laugardaginn næstkomandi klukkan fjögur opnar sýningin Næturútvarp á Svavarssafni á Höfn í Hornafirði. Sýningin er innblásin af verkinu Næturútvarp á Öræfajökli, geómetrísku abstraktmálverki sem Svavar Guðnason málaði 1954-1955 og tileinkaði vini sínum Jóni Leifs.

Þessa sögu hefur myndlistakonan og skáldið Ásta Fanney Sigurðardóttir tekið og unnið upp úr sýningu sem fer með gesti inn í heim málverksins. Að sögn listamannsins er kveikja sýningarinnar lítill gylltur kassi í verki Svavars, sem virkar eins og dyr inn í málverkið og þar með aðra veröld þar sem litir og form verksins lifna við. Á sýningunni eru tvö videoverk, hljóðverk, málverk, ljósmynd og skúlptúrar.

Ásta Fanney skar út nótnablöð með tónverkum Jóns Leifs eftir geometrískum formum úr verki Svavars, úr þeim vann hún í samstarfi við sellóleikarann Gyðu Valtýsdóttur og píanóleikarann Áshildi Ákadóttur hljóðverk sem óma í rýminu.

Litir og form úr málverki Svavars vakna til lífsins í einskonar abstrakt útvarpi þar sem skipt er um stöð aftur og aftur. Næturútvarpið sjóngerist að endingu í klassísku málverki á striga og þar með er hringnum lokað. Sýningin er mjúk hrynjandi með sterku hljómfalli draumkenndra andstæðna og nýrra tíma.

Ásta Fanney Sigurðardóttir er myndlistarmaður, tón- og ljóðskáld. Hún stundaði nám við Listaháskóla Íslands og hefur gefið út fimm bækur. Verk hennar hafa verið sýnd og flutt í Listasafni Reykjavíkur, Kling & Bang, Nýlistasafninu, Hafnarborg, Y gallery, Casino Luxembourg, Nóbelsafninu í Svíþjóð, Kulturhuset i Stockholm, Kulturhuset i Oslo, Onassis í Aþenu og fleira. Ásta hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2017 og var tilnefnd til Bernard Heidsieck verðlaunanna í Pompidou árið 2021.

Margrét Áskelsdóttir (f. 1984) sýningarstjóri, er starfandi ráðgjafi við Listaverkaeign Seðlabanka Íslands. Margrét situr í stjórn Listfræðafélags Íslands og Myndlistarmiðstöðvar. Margrét hefur komið að fjölmörgum sýningarverkefnum og útgáfum um myndlist og menningu, innan lands sem utan. Hún starfaði sem framkvæmdastjóri BERG Contemporary og útgáfustjóri Crymogea bókaútgáfu. Margrét hefur lokið prófi í listfræði, fjölmiðlafræði og frumkvöðlafræði.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page