Námskeið í málaralist og vatsnlitun í Myndlistarskólanum
föstudagur, 13. október 2023
Námskeið í málaralist og vatsnlitun í Myndlistarskólanum
Nú fara senn að hefjast námskeið í Myndlistarskólanum. Annað er í málaralist (undir yfirskriftinni form og flötur), kennt af Jóni B. K. Ransu, og hitt í vatnslitun, kennt af Lukasi Bury.
MÁLARALIST: FORM OG FLÖTUR
Á námskeiðinu verður farið yfir megin þætti í formfræði og myndbyggingu í málaralist. Nemendur kynnast ýmsum reglum um skiptingu myndflatar, samsetningu forma, virkni þeirra og tákn.
Kennari byrjar tímana á kynningu um ákveðna þætti í formfræði og myndbyggingu, með tilvísunum í þekkt listaverk. Þátttakendur vinna svo verkefni út frá því sem tekið er fyrir hverju sinni.
Fyrirlestrar og verkefni:
1) Hlutföll og myndbygging
2) Symmetría og Asymmetría
3) Evklíðísk og óevklíðísk geómetría
4) Skynheild og sjónblekkingar
5) Tákn og merking forma
6) Formleysa
Markmiðið er að þátttakendur öðlist góða yfirsýn á formfræði og myndbyggingu sem nýtist þeim síðar í uppbyggingu á eigin verkum.
VATNSLITUN
Vatnsliturinn er tærasta málningarefnið, enda vatnið eitt af frumefnunum. Á námskeiðinu verða gerðar fjölbreyttar tilraunir í samvinnu við kennara. Haldið verður áfram að nálgast vatslitunina úr sem flestum áttum og áhersla lögð á tilraunagleði. Verkefnin verða gjarnan tengd straumum og stefnum og ákveðnum listamönnum. Mikil áhersla verður lögð á athöfnina að mála og því velt upp hvað það merkir að mála hlut eða hugmynd. Námskeið er ætlað byrjendum sem og lengra komnum.
Skráning og nánari upplýsingar á https://myndlistaskolinn.is/namskeid