Morguntímar í módelteikningu og fleiri spennandi námskeið
fimmtudagur, 19. janúar 2023
Morguntímar í módelteikningu og fleiri spennandi námskeið
Myndlistaskólinn í Reykjavík býður upp á fjölbreytt úrval námskeiða fyrir starfandi listamenn og hönnuði sem vilja bæta við kunnáttu sína og hæfni.
Morguntímar í módelteikningu hefjast 20. janúar. Á námskeiðinu verður lögð aðaláhersla á mismunandi efni, aðferðir og tækni við að teikna módel. Nemendur þjálfast í notkun á blýanti, kolum, bleki og fleiru. Einnig er glímt við hreyfingu og stundum verður skuggi og birta viðfangsefni í teikningunni. Kennslan er persónubundin og miðar út frá hæfni og þörfum hvers nemenda.
Námskeiðið er kennt á föstudögum kl. 08.45-12.00 og stendur yfir í tólf vikur. Kennari er Sigga Björg Sigurðardóttir.
Sex vikna námskeið í grafík hefst 25. janúar. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á dúkristu (háþrykk) og carborundum (djúpþrykk). Inn í kennsluna verða fléttuð dæmi og fróðleikur úr listasögunni eftir því sem við á.
Námskeiðið er ætlað fyrir þá sem hafa lokið grunnnámskeiði í grafík en gæti einnig nýst þeim sem hafa reynslu af viðfangsefninu og vilja rifja upp grafíkaðferðir.
Kennt er vikulega á miðvikudögum kl 17.00-20.15. Kennari er Elva Hreiðarsdóttir.
Námskeið Myndlistaskólans í Reykjavík eru styrkhæf hjá flestum fræðslusjóðum stéttarfélaga.
Skoðið úrvalið á www.mir.is.