top of page

Mokka Kaffi: Smáheimar - Hörður Ágústsson aldarafmælissýning

508A4884.JPG

föstudagur, 4. febrúar 2022

Mokka Kaffi: Smáheimar - Hörður Ágústsson aldarafmælissýning

Í tilefni af aldarafmæli Harðar Ágústssonar myndlistarmanns verður opnuð sýning á Mokka Kaffi við Skólavörðustíg þann 4. febrúar. Á sýningunni eru ljósmyndir sem hann tók á árunum 1964-1965.

Myndirnar eru úr safni ljósmynda sem Hörður kallaði Smáheimar og eru gerðar eftir litskyggnum sem Hörður tók af náttúrulegum og manngerðum fyrirbærum eins og frosnu vatni, sandfjöru eða veggjum. Þær eiga það sameiginlegt að vísa til einhvers konar abstrakt forma, ýmist geómetrískra eða ljóðrænna og eru í anda ljósmyndara sjötta áratugarins. Því hefur verið haldið fram að í ljósmyndunum megi sjá svipaða nálgun hjá Herði og þegar hann vann að strangflatamyndum sínum á fyrri hluta sjötta áratugarins. Fyrir utan eina mynd sem birtist á forsíðu
Birtings
árið 1967 er ekki vitað um að þessi verk hafi áður komið fyrir almenningssjónir.


Hörður Ágústsson (1922–2005) var í framvarðarsveit íslenskrar myndlistar frá því að hann kom heim úr námi frá Frakklandi 1952. Hann vann auk þess markvert starf á sviði hönnunar bóka, tímarita og auglýsinga. Hörður var einn af stofnendum og ritstjórum tímaritsins Birtings á árunum 1955–1968. Hann kenndi við Myndlista- og handíðaskólann á árunum 1962–1989 og var skólastjóri hans 1968–1972. Hörður var einnig mikilvirkur fræðimaður á sviði íslenskrar húsagerðarsögu og liggja eftir hann fjölmörg rit um íslenska byggingararfleifð.


Sýningin opnar eins og fyrr segir 4. febrúar og stendur til 23. mars næstkomandi. Mokka Kaffi er opið daglega frá kl. 9:00 til kl.18:00. Sýningarstjóri er Kristján Steingrímur Jónsson.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page