top of page

Mokka Kaffi: Á meðan - Jón Magnússon

508A4884.JPG

mánudagur, 23. maí 2022

Mokka Kaffi: Á meðan - Jón Magnússon

Sýning á 25 málverkum og myndlistarbókinni „Á meðan“ eftir Jón Magnússon, til styrktar starfi Unicef í Úkraínu. Sýningin stendur frá 19. maí til 7. júlí 2022.

Á meðan hvítlaukurinn steikist á pönnunni, berast úr bakgrunni fregnir sem tjá stríðsátök fullorðinna og harmagrát umkomu¬lausra barna langt í burtu. Raunveruleiki þessarra landa hefur sífellt vægari áhrif á okkur, hina almennu borgara, sem stöndum bjargarlaus frammi fyrir þessum óhugnandi eyðileika. Hvað er það sem getur gripið athygli og orkað á jarðarbúa? Getur mitt málverk ort um þennan harmleik? Hvernig get ég, myndlistarmaður í órafjarlægð, varpað agnarljósi á þessa eymd? Hvers manns áþján fölnar í ljósi þjáninga og þrauta þessa varnarlausa fólks og barna þeirra sem hafa gleymt hvernig hlátur hljómar og æskuvísur. Gæti mynd veitt örlitla huggun í óhugnaðinum?

Hugmyndin kviknaði þegar ég sá fréttaljósmynd af látnu barni flóttamanna á strönd Grikklands. Ljósmyndin var í öllum fréttum og mér ofbauð. Ég sá rautt og hugsaði með mér, hvað get ég gert til að hjálpa? Þetta var fyrir 4 árum. Þá ákvað ég að gera bók til styrktar Unicef og málverkin ættu að vera eftir fréttamyndum af börnum frá stríðshrjáðum löndum. Ég byrjaði skoða á netinu. Það sem birtist mér var ólýsanlega hræðilegt, engar hryllingsmyndir komast nálægt því að birta þann ömurlega raunveruleika sem börn í stríðshrjáðum löndum lifa við. Að gera undirbúnings vinnuna fyrir þetta verkefni var mér þungbært. Ég hef sjálfur barist við andlega áþján en það fölnar miðað við það sem þessi börn hafa gengið í gegnum. Börn eiga fyrst og fremst að leika sér og hlæja, ekki þjást og gráta. Þegar ég byrjaði að mála sá ég að óhugnaðurinn síaðist enn í gegnum málverkin þó mikill munur sé á ljósmynd og málverki, ég hugsaði mér, hvað gat ég gert til að reyna að hugga þau? Ég ákvað að setja fugla, dýr og leikföng inn á verkin og einhvern veginn settu þau fílter á hörmungarnar og gerðu áhorf mögulegt. Unicef veitti mér aðgang að myndabanka sínum og eru nokkrar myndir þaðan. Eftir að hafa skoðað þúsundir ljósmynda urðu 25 fyrir valinu og málverk eftir þeim fara í bókina „Á meðan...“ ásamt texta eftir Diddu Jónsdóttur.

Jón Magnússon er með BFA Bachelor gráðu í málverki frá Parsons School of Design Paris 1995 og Diploma í nútíma málaralist frá Myndlistarskóla Reykjavíkur 2018. Hann hefur haldið einkasýningar og sýnt á samsýningum.
Didda (skáld) Jónsdóttir er íslenskt skáld, rithöfundur, textahöfundur og leikkona.

www.jonmagnusson.is

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page