Markús Þór Andrésson nýr safnstjóri Listasafns Reykajvíkur

fimmtudagur, 17. júlí 2025
Markús Þór Andrésson nýr safnstjóri Listasafns Reykajvíkur
Markús Þór Andrésson hefur verið ráðinn safnstjóri Listasafns Reykjavíkur en hann mun taka við starfinu með haustinu. Markús hefur starfað sem deildarstjóri sýninga og miðlunar hjá safninu frá árinu 2017.
Markús Þór er með MA gráðu í sýningarstjórn frá Bard Center for Curatorial Studies í Bandaríkjunum og BA próf í myndlist frá Listháskóla Íslands. Markús Þór hefur mikla og fjölbreytta reynslu og þekkingu af safnastörfum, einkum fyrir Listasafn Reykjavíkur en þar hefur hann unnið að fjölda sýninga, stýrt útgáfum og miðlað viðfangsefnum safnsins innan fræðaheimsins og til almennings jafnt með textagerð, á málþingum og með leiðsögnum. Hann hefur verið fulltrúi safnsins á alþjóðavettvangi meðal annars í verkefnum eins og alþjóðlegu samsýningunni Norður og niður.
Ráðningin er til fimm ára með möguleika á fimm ára endurráðningu. Tekur Markús Þór við stöðunni af Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur sem lætur af störfum eftir 10 ára starf.
Við óskum Markúsi innilega til hamingju með nýju stöðuna og hlökkum til framhaldsins.


