Ljósmyndasafn Reykjavíkur: Landvörður - Jessica Auer
miðvikudagur, 8. júní 2022
Ljósmyndasafn Reykjavíkur: Landvörður - Jessica Auer
Landvörður – Jessica Auer opnar í Ljósmyndasafni Reykjavíkur
Fimmtudaginn 9. júní kl. 17
Landvörður er yfirskrift sýningar með ljósmyndum eftir kanadíska ljósmyndara að nafni Jessica Auer sem opnuð verður í Ljósmyndasafni Reykjavíkur fimmtudaginn 9. júní kl. 17.
Frá árin 2016 hefur Jessica Auer fengist markvisst við myndræna skrásetningu á áhrifum fjöldaferðamennsku á íslenskt landslag og samfélag. Jessica ferðaðist milli Kanada og vinnustofu sinnar á Íslandi og fór ekki varhluta af ferðamannauppganginum á þessum tíma og upplifði sig í þeirri stöðu að vera í senn útlendingur og heimamanneskja. Með því að sjá báðar hliðar með augum ferðamannsins vaknaði hjá henni þörf til að deila þessari reynslu sinni í gegnum ljósmyndir og myndbönd.
Þegar ferðalög lögðust af í Covid faraldrinum urðu töluverðar breytingar á verkum Jessicu sem hófu að endurspegla gildiskerfi þessa uppgangsiðnaðar. Í flestum nýjustu ljósmyndum hennar beinir hún athyglinni að náttúruvernd og þeim tilraunum sem gerðar eru til að vernda svæði sem eru viðkvæm fyrir ágangi í óvissuástandi heimsfaraldurs. Á undanförnum árum hefur hún ferðast um landið með stórformats myndavél til að taka portrettmyndir af landvörðum og öðrum þeim sem sinna gæslu á þessum svæðum. Þessi samskipti gáfu tækifæri til að spjalla um gildi menningar og náttúru í íslensku landslagi.
Sýningin Landvörður, með sínum portrettmyndum, landslagsljósmyndum og myndböndum, er hugleiðing um þá samábyrgð sem Íslendingar og gestir landsins bera við að vernda þessa einstöku náttúru, og veltir einnig upp spurningum um þá þversögn sem felst í því að reyna að vernda sömu svæði og ferðamannaiðnaðurinn leitast við að nýta.
Jessica Auer er kanadískur ljósmyndari, kvikmyndagerðamaður og kennari sem búsett er á Seyðisfirði. Verk hennar hafa verið sýnd á söfnum, galleríum og hátíðum, m.a. á Listasafni Íslands, The Canadian Center for Architecture og á Ljósmyndatvíæringnum í Mulhouse í Frakklandi. Árið 2020 hlaut hún styrk úr sjóði Magnúsar Ólafssonar ljósmyndara frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur fyrir verkefni sitt „Looking North” sem var gefið út af Another Place Press árið 2021, birt á sjónvarpsstöðinni ARTE og í breska dagblaðinu The Guardian. Jessica er með MFA prófgráðu frá Concordia University í Montréal, þar sem hún kennir ljósmyndun í hlutastarfi. Á Íslandi rekur hún Ströndina Studio á Seyðisfirði.
Jessica vill þakka Kormáki Mána Hafsteinssyni og Zuhaitz Akizu fyrir þeirra framlag sem og Matthew Brooks og Luigi Iagulli fyrir aðstoðina við eftirframleiðslu verkanna. Sýningin var styrkt af Canada Council for the Arts og the Conseil des arts et des lettres du Québec.