top of page

Ljósmyndasafn Reykjavíkur: Kerfið - Elvar Örn Kjartansson

508A4884.JPG

fimmtudagur, 15. september 2022

Ljósmyndasafn Reykjavíkur: Kerfið - Elvar Örn Kjartansson

Elvar Örn Kjartansson │Kerfið
Opnun í Ljósmyndasafni Reykjavíkur laugardag 17. sept kl. 14

Kerfið er titill sýningar sem ljósmyndarinn Elvar Örn Kjartansson opnar í Ljósmyndasafni Reykjavíkur laugardaginn 17. september kl. 14. Á sýningunni „Kerfið“ leitast Elvar Örn við að draga upp á yfirborðið hið ósýnilega kerfi sem liggur að baki nútíma þægindum og við tökum sem sjálfsögðum hlut.
Frá árinu 2016 hefur Elvar Örn unnið að umfangsmiklu ljósmyndaverkefni þar sem hann hefur heimsótt fyrirtæki og stofnanir á Íslandi og myndað þar ýmis rými. Um er að ræða stórt og flókið kerfi sem samanstendur af mannvirkjum, stofnunum og þjónustufyrirtækjum og óteljandi pörtum sem eru innviðir þess. Hvert og eitt þeirra þjónar sínum sérstaka tilgangi og sér til þess að þjóðfélagið nær að ganga sinn vanagang frá degi til dags og við lifum og hrærumst í því nánast óafvitandi. Það er ekki fyrr en rafmagnið fer af eða þegar netsambandið virkar ekki að við finnum fyrir því en einkum þegar farið er í verkfall í heilu atvinnugreinunum.
Með því að taka fyrir svo víðfeðmt viðfangsefni, sem í senn er óhlutbundið og hlutbundið, og draga það saman í myndrænt samhengi er markmiðið að vekja hinn almenna borgara, áhorfandann, upp úr dvala, ef svo má segja, í átt til meðvitundar um mikilvægi þessara hluta. Með aukinni vitund og virðingu fyrir atvinnugreinum þjóðfélagsins, sem hver um sig er mikilvægur hlekkur kerfisins er verkefninu ætlað að vekja umræðu og spurningar um lifnaðarhætti í fortíð, nútíð og framtíð.
Elvar Örn hefur haft ljósmyndun að aðalstarfi síðastliðin fimmtán ár og hafa verk hans á þeim tíma þróast í áttina að abstrakt myndlist. Prentverk sem hann vann með photogravure/heliogravure koparplötu þrykktækni í Noregi veitti honum inngöngu inn í NBK – norska listamannasambandið og norska grafíksambandið. Hann er einnig meðlimur í Íslenskri Grafík og KIMIK – samtökum listamanna á Grænlandi. Í dag býr og starfar Elvar Örn í Nuuk á Grænlandi ásamt því að vinna að ýmsum verkefnum á Norðurlöndunum auk þess sem hann hefur verið að vinna við postulíns og brons-skúlptúrgerð í Kína undanfarin ár. Er Elvar Örn bjó í Noregi fór hann í tvo vísindaleiðangra til austurstrandar Suðurheimskautsins.
Ítarlegri upplýsingar um sýninguna og ljósmyndarann má finna hér á vef safnsins https://borgarsogusafn.is/ljosmyndasafn-reykjavikur/syningar/elvar-orn-kjartansson-kerfid

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page