top of page

Litla Gallerí: Huggun harmi gegn - Þórdís Erla Ágústsdóttir

508A4884.JPG

miðvikudagur, 7. desember 2022

Litla Gallerí: Huggun harmi gegn - Þórdís Erla Ágústsdóttir

Þórdís Erla Ágústsdóttir heldur sýningu í Litla Gallerý dagana 8.-11. desember. Yfirskrift sýningarinnar er Huggun harmi gegn - Persónuleg frásögn um náttúruna, en þar sýnir Þórdís ljósmyndaverk sem hún hefur unnið að síðastliðin ár.

"Ég hef margoft velt því fyrir mér hvort ég geti miðlað þeirri vellíðan og frelsistilfinningu sem ég finn fyrir í víðáttu Íslands. Get ég komið á framfæri ást til víðáttunnar og hins opna sjóndeildarhrings, eða það hvernig samspil birtu og lands hrærir upp í tilfinningum, hreyfir við manni og fyllir mann orku.
Þegar ég tek landslagsmyndir hef ég mest fengist við margbreytileika birtunnar, himininn, hafið, sjóndeildarhringinn og ummerki í náttúrunni. Sjóndeildarhringurinn, himininn og hafið opna leið út í frelsið og eilífðina. Oft er þetta eitt einasta augnablik í sérkennilegu samspili birtu og umhverfis og úr verður fagurfræðileg upplifun sem hefur mikil áhrif á mig tilfinningalega. Mig langar að fanga þessa sterku náttúrupplifun og koma henni áfram til áhorfandans. Ef til vill vekja myndirnar upp þrá eftir náttúru hjá áhorfandanum, þrá í komast í víðáttuna. Áhorfandinn fær jafnvel tilfinningu fyrir frelsi.
Undanfarin ár hef ég einnig velt fyrir mér hverfulleika náttúrunnar. Umbreytingarnar eru orðnar hraðar og niðurbrot áberandi. Ummerkin í náttúrunni eru vísbendingar um fallvaltleika hvort sem þau eru af mannavöldum eða náttúruleg. Þegar ummerkin eru náttúrunnar hafa þau ekki orðið að ástæðulausu, eins og til dæmis hörfun jökla landsins eða hækkun sjávars. Að benda á ummerkin í mynd er leið til að undirstrika þróun og atburði sem gleymast í dagsins önn. Þetta hefur verið mér mikilvægt umfjöllunar efni og ég tel að með því að mynda hið fagra og háleita megi minna á andstæðu þess. Þannig er hægt að minna á víðáttuna og hið ósnorta og benda á það mikilvæga sem ber að vernda. Angistin er aldrei langt undan í heimi þar sem landrými verður æ minna og kröfur um að nýta náttúruauðlindir æ háværari. Angistin strýkur vanga okkar í hvert skipti sem við verðum vitni að eyðileggingu lands eða þegar náttúran umbreytist í öskrandi ófreskju og ræðst að manngerðum stöðum.
Listakonan Roni Horn notaði Ísland sem útivinnustofu og kallaði Ísland stærstu uppsprettu “hvergi” í heiminum. Hún átti þar við raunverulega og ósnorta staði sem ættu í hættu að hverfa inn í veröld minninga og ímyndunar. Ég tel að “hvergilandið”, hið ósnerta, verði að sjást til að undirstrika mikilvægi þess. Með því að benda á náttúruna og það sem hún hefur að bjóða, minnum við líka á það sem við getum misst.
Náttúran er bæði ung og forn. Tíminn, eins og við höfum náð að skilgreina hann er ekki til í óbyggðu landinu. Ég hef kosið að dvelja í þessu tímaleysi í myndum mínum. Það þarf ekki að skipta máli hvenær ég stóð þarna. Þannig skiptir heldur ekki máli hvernig ég gerði myndina, með hvaða vél eða hvaða linsu. Áhorfandinn sér landið með mínum augum, birtuna sem ég vil sýna, sjónarhornið sem skiptir mig máli. Við sjáum ekki öll allt í miklum smáatriðum eða fullkomnum fókus. Margir sjá umhverfið meira í gegn um tilfinningar sínar eða sem upplifun. Aðrir sjá náttúruna sem brotakennda mynd, eins og mósaík. Sumir horfa vítt og aðrir þröngt.
Á sýningunni eru myndir sem ég hef tekið undanfarin ár. Við Lóa Yona dóttir mín gerðum saman bók með úrvali mynda síðastliðinna 20 ára. Þetta er sölusýning og er bókin gefin út í mjög takmörkuðu upplagi."

Þórdís tekur vel á móti gestum og sérstök sýningaropnun verður fimmtudaginn 08. desember frá klukkan 18:00 - 21:00. Allir hjartanlega velkomnir!

Opnunartímar eru eftirfarandi:

fimmtudagur 18:00 -21:00
föstudagur 13:00 - 21:00
laugardagur 12:00 -18:00
sunnudagur 13:00 - 18.00

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page