top of page

Listval: Nýtt sýningarrými í Hörpu

508A4884.JPG

þriðjudagur, 30. nóvember 2021

Listval: Nýtt sýningarrými í Hörpu

Listval opnar sýningarrými í Hörpu

Starfsemi á jarðhæð Hörpu hefur tekið miklum breytingum síðastliðin misseri. Nýjasta viðbótin er sýningarrými á vegum Listvals sem sérhæfir sig í myndlistarráðgjöf fyrir heimili, fyrirtæki og stofnanir. Laugardaginn 4. desember kl 12:00 opnar fyrsta sýning Listvals í Hörpu, Jólasýning Listvals, þar sem yfir 200 verk verða til sýnis og sölu eftir um 70 listamenn.

„Ætlunin er að skapa rýminu fallega og fágaða umgjörð í formi myndlistarsýninga og gallerís og veita gestum eftirminnilega upplifun og innsýn í það sem íslensk myndlist hefur uppá að bjóða. Við viljum skapa þægilegt andrúmsloft og hughrif fyrir gesti og gangandi. Gestir geta fengið ráðgjöf við val á verkum, fræðst um íslenska myndlist og skoðað bækur um myndlist. Þá ætlum við einnig að vera með viðburðadagskrá með uppákomum þar sem nýjum útgáfum og verkum verður fagnað.“ segir Elísabet Alma Svendsen stofnandi og annar eigandi Listvals.

„Breytingarnar sem gerðar hafa verið á þessu afmælisári Hörpu miða allar að því að starfsemi og þjónusta í húsinu rími vel við kjarnastarfsemina og laði til sín sem fjölbreyttastan hóp gesta. Harpa er fjölsóttasta viðburðahús landsins og það er því mikið tilhlökkunarefni að fá Listval inn með nýja vídd í upplifun og þjónustu við gesti,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu.

Sýningin opnar laugardaginn 4. desember kl. 12:00 – 18:00. Opnunartími Listvals í Hörpu verður alla daga frá 10-18.
Hægt er að fylgjast með Listval á instagram www.instagram.com/listval_ og skoða verk á www.listval.is.

Nánari upplýsingar veita Elísabet Alma Svendsen (6946048) og Helga Björg Kjerúlf (6933742)

Nánar um Listval
Listval var stofnað árið 2019 með það að markmiði að auðvelda fólki að fjárfesta í myndlist og gera hana aðgengilegri. Listval hefur hjálpað fjölda einstaklinga og fyrirtækja við val á nýjum verkum en einnig aðstoðað einstaklinga með safneign sína og upphengi. Fyrr á þessu ári opnaði Listval sýningarrými á Hólmaslóð 6 þar sem fjölbreytt úrval myndlistar er til sýnis og sölu. Auglýstur opnunartími Listvals á Granda mun haldast hinn sami.
Elísabet Alma Svendsen og Helga Kjerúlf hafa báðar starfað þvert á svið myndlistar og hönnunar við fjölbreytt verkefni og hafa góða innsýn og mikil tengsl inn í myndlistarsenuna. Þær hafa komið að fjölda verkefna tengdum myndlist og má þar nefna rekstur gallerís, útgáfu, Feneyjartvíæringinn og kynningu á myndlist á alþjóðavísu.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page