Listval: Bergmál - Áslaug Íris Katrín
föstudagur, 25. nóvember 2022
Listval: Bergmál - Áslaug Íris Katrín
Á sýningunni, Bergmál, kannar Áslaug Íris Katrín óhlutbundin form innan myndflatarins. Negatíf og positíf form eru endurtekin milli verka þar sem þau mynda nýja myndbyggingu hverju sinni og taka á sig nýja merkingu – abstrakt innan abstraktsins. Áslaug laðast að lifandi hefð óhlutbundins myndmáls sem gefur henni rými til þess að vinna með myndheim sinn á rökrænan hátt án fyrirfram gefins ramma.
Hvenær öðlast hið óhlutbundna merkingarbært form? Í sýningunni leikur Áslaug sér að endurtekningum forma sem svo kallast á milli verka. Upphafspunkturinn er línuteikning. Þar eru dregin upp óhlutbundin form sem tengjast hvert öðru, raðast reglulega yfir myndflötinn og mynda grind eða net. Negatífur formanna eru síðan skornar út og endurraðað að nýju. Ný form verða til, negatífur þeirra skornar út og þeim endurrað enn á ný. Að þessu leyti eru verkin samfelld abstraksjón.
Áslaug veltir fyrir sér lagskiptum veruleika. Hvernig við veljum það sem við viljum meðtaka sem svo ræður upplifun okkar og skilningi á veruleikanum. Að þessu leiti má skilja lagskipt verk sýningarinnar eins og horft sé í gegnum síur, einskonar glugga – þar sem við staðsetjum okkur innan lagskipts umhverfis, í leit að nýjum röksemdum, nýrri yfirsýn. Við gægjumst í gegn – sumt er sjáanlegt, annað hulið, og upplýsingarnar sem við höfum aðgang að móta skilning okkar á eigin heimsmynd. Í verkunum er hið negatífa rými jafn mikilvægt og hið positífa og bendir Áslaug hér á þá óteljandi möguleika endurtekningarinnar innan takmarkanna.
Áslaug vinnur með tungumál lita, efnisvals og myndbyggingar, frekar en bókstaflegar myndlíkingar. Merkingin er fólgin í forminu og í efnisvali. Grjót, steinefni, blýantur, vatnslitir og málning eru allt efnisþættir sem Áslaug nýtir sér í verkum sínum og á sér einnig hliðstæðu í náttúrunni. Tilvísunin sést ljóslega í notkun efnanna – rennandi vatn, berg, sprungin jörð, fallin lauf á haustdegi, arkitektúr þéttbýlisins. Litaval hennar er ákveðið og skýrt en að baki liggur tungumál hins óhlutbundna sem er alþjóðlegt og byggir á sammannlegum tilfinningum, næmni okkar, innsæi.
Sýningin stendur til 17. desember og er opið í Listvali á Granda á föstudögum og laugardögum frá 13:00 –16:00.
Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir (f. 1981) lauk BA prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2006. Árið 2009 lauk hún MFA prófi frá School of Visual Arts í New York. Verk Áslaugar hafa verið sýnd á sýningum í söfnum og galleríum á Íslandi, í Evrópu og í Bandaríkjunum.
*Áslaug Íris Katrín. nærmynd af verki, 2022. Birt með leyfi listamannsins.