Listasalur Mosfellsbæjar: Litandi, litandi, litandi - Jón Sæmundur Auðarson
þriðjudagur, 15. nóvember 2022
Listasalur Mosfellsbæjar: Litandi, litandi, litandi - Jón Sæmundur Auðarson
Litandi, litandi, litandi
Síðasta sýning ársins í Listasal Mosfellsbæjar er Litandi, litandi, litandi eftir Jón Sæmund Auðarson. Opnun er föstudaginn 18. nóvember kl. 16-18 og mun Teitur Magnússon spila nokkur lög.
Jón Sæmundur er kröftugur listamaður sem er bæði þekktur í heimi myndlistar og tónlistar. Viðfangsefni verka hans á sýningunni eru andar en tengsl lífsins, dauðans og þess sem bíður handan dauðans hafa verið listamanninum hugleikin um langt skeið.
Fyrir 12 árum byrjaði Jón Sæmundur að mála einn anda á striga í upphafi hverra tónleika með hljómsveit sinni Dead Skeletons. Þetta gerði hann til að undirbúa sig andlega fyrir tónleikana og komast yfir sviðsskrekk. Jón Sæmundur er enn að mála anda og nú ekki bara fyrir tónleika heldur hvenær sem andinn kemur yfir hann.
Síðasti sýningardagur er 16. desember. Listasalur Mosfellsbæjar er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Þverholti 2. Opið er kl. 9-18 á virkum dögum og kl. 12-16 á laugardögum. Ókeypis og öll velkomin.