top of page

Listasafnið á Akureyri - Hulið landslag og verk úr safneign

508A4884.JPG

fimmtudagur, 30. nóvember 2023

Listasafnið á Akureyri - Hulið landslag og verk úr safneign

Laugardaginn 2. desember kl. 15 verða tvær sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri, annars vegar sýning Sigurðar Guðjónssonar, Hulið landslag, og hins vegar sýningin Safn: Hildigunnur Birgisdóttir og verk úr safneign. Á opnunardegi kl. 15.40 verður listamannaspjall um báðar sýningar.


Sigurður Guðjónsson er þekktur fyrir magnþrungin vídeóverk, þar sem mynd, hljóð og rými mynda órofa heild. Hann beinir einkum sjónum að virkni margs konar tækjabúnaðar, þar sem áhorfandinn er lokkaður inn í heim sefjandi endurtekningar, takts og reglu og mörk hins mannlega og vélræna verða óljós.

Verkið Enigma einkennist af sefjandi endurtekningum, þar sem takturinn er sleginn eins og hjartsláttur alheimsins sem kemur reglu á óreiðuna. Með rafeindasmásjá má greina kolefnisbrot og gera örsmáan efnisheiminn sýnilegan með milljónfaldri stækkun. Þar sjáum við óravíddir, ekki ósvipaðar þeim sem við getum séð með stjörnukíki sem beint er út í himinhvolfið. Titringur og taktur í ólínulegri frásögn, sem byggir á minnsta mögulega mælikvarða, opna okkur heim svimandi vídda.

Sigurður Guðjónsson var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2022. Hann hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin 2018 fyrir sýninguna Innljós, sem samanstóð af vídeóinnsetningum í Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði.


Safn: Hildigunnur Birgisdóttir og verk úr safneign

Allt frá því fyrstu listasöfnin í eigu almennings voru sett á stofn á síðari hluta 18. aldar, hafa þau gegnt ákveðnum skyldum gagnvart listaverkaeigninni, en listasafn telst auðvitað ekki raunverulegt safn nema þar sé að finna safneign. Helstu skyldur eru: að skrá safneignina, upplýsa almenning um gildi hennar og sýna hana.

Á þessari sýningu er þessum skyldum framfylgt með fremur óhefðbundnum hætti, þar sem safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, Hlynur Hallsson, leitaði til Jóns B. K. Ransu, sýningarstjóra, um að setja saman sýningu úr safneigninni, sem þá leitaði til myndlistarkonunnar Hildigunnar Birgisdóttur til að vinna sjónrænt með safneignina – í raun eins og að um hvert annað hráefni væri að ræða. Hildigunnur er þekkt fyrir að nota söfnun og skrásetningu sem hluta af listsköpunarferlinu. Safn, í þessum skilningi, hefur því tvöfalda merkingu: annars vegar er það eignin sem Listasafnið á Akureyri hefur sankað að sér og hins vegar listaverk eftir Hildigunni Birgisdóttur. Sýningarstjóri er Jón B. K. Ransu.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page