Listasafnið á Akureyri: tvær sýningaropnanir 24. febrúar 2024
fimmtudagur, 22. febrúar 2024
Listasafnið á Akureyri: tvær sýningaropnanir 24. febrúar 2024
Laugardaginn 24. febrúar kl. 15 verða samsýningarnar Sköpun bernskunnar 2024 og Samspil opnaðar í Listasafninu á Akureyri. Þetta er ellefta sýningin undir heitinu Sköpun bernskunnar. Hún er sett upp sem hluti af safnfræðslu, með það markmið að gera sýnilegt og örva skapandi starf barna á aldrinum fimm til sextán ára. Þátttakendur hverju sinni eru skólabörn og starfandi myndlistarmenn. Unnin eru verk sem falla að þema sýningarinnar, sem að þessu sinni er hringir.
Myndlistarmennirnir sem boðin var þátttaka í ár eru Gunnar Kr. Jónasson og Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir. Skólarnir sem taka þátt að þessu sinni eru leikskólinn Naustatjörn og grunnskólarnir Glerárskóli og Naustaskóli, sem og Minjasafnið á Akureyri / Leikfangahúsið.
Leikskólabörnin komu í Listasafnið í nóvember síðastliðnum og unnu sín verk undir stjórn beggja fræðslufulltrúa safnsins. Myndmenntakennarar þeirra grunnskóla sem taka þátt stýra vinnu sinna nemenda, sem unnin er sérstaklega fyrir sýninguna. Sýningarstjóri: Heiða Björk Vilhjálmsdóttir.
Listamenn bjóða ungmennum af erlendum uppruna í listrænt samtal
Sýningin Samspil er afrakstur þess að bjóða ungmennum af erlendum uppruna að sækja listvinnustofu í Listasafninu á Akureyri. Í vinnustofunni fengu þau innblástur úr völdum verkum úr safneigninni og unnu eigin verk undir handleiðslu starfandi listamanna. Í ferlinu fengu þátttakendur tækifæri til að efla þekkingu sína, tjá sig í gegnum listina á eigin forsendum og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þeir kynntust jafnframt listsköpunarferlinu frá upphafi til enda; frá því að hugmynd fæddisd og þar til afraksturinn var settur upp á sýningu. Listamennirnir Brák Jónsdóttir og Þórir Hermann Óskarsson stjórnuðu vinnunni með áherslu á sköpun og sjálfstæði.
Með verkefni sem þessu vill Listasafnið ná til breiðari hóps safngesta og hvetja ungmenni af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra til virkrar þátttöku í menningarstarfi. Tryggja þarf aðgengi að menningu fyrir alla þjóðfélagshópa, því fjölbreytni í menningarlífi styrkir samfélagið. Verkefnið er unnið í samstarfi við Velferðarsvið Akureyrarbæjar og styrkt af Barnamenningarsjóði Íslands. Verkefnisstjóri er Heiða Björk Vilhjálmsdóttir.