Listasafnið á Akureyri: Tvær sýningar opnaðar á laugardaginn
fimmtudagur, 21. mars 2024
Listasafnið á Akureyri: Tvær sýningar opnaðar á laugardaginn
Laugardaginn 23. mars kl. 15 verða tvær sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri, annars vegar sýning Salóme Hollanders, Engill og fluga, og hins vegar sýning Heiðdísar Hólm, Vona að ég kveiki ekki í. Á opnunardegi kl. 15.45 verður listamannaspjall við báðar listakonurnar sem Freyja Reynisdóttir, verkefna- og sýningarstjóri, stýrir.
Form, línur og fletir
„Heimur málverksins býr yfir dulúð og draumkenndum narratívum um merkingu og myndrænt landslag,“ segir Salóme Hollanders. „Í rýminu speglast víddir hins tvívíða flatar og hins þrívíða efnisheims, þar sem form, línur og fletir hafa oltið fram úr striganum inn í rýmið, eins og teningar sem er kastað á spilaborð. Að standa í miðju málverki og upplifa það innan úr því sjálfu, finna fyrir andrúmslofti og efniskennd þess. Að hreyfa sig innan strigans. Flakk einfaldra en óræðra forma vídda á milli hefur í för með sér nýja möguleika og ljóst er að ekki er allt sem sýnist á tvívíðum fleti strigans.“
Salóme Hollanders lauk BA-námi við Listaháskóla Íslands í vöruhönnun vorið 2022. Verk hennar eru gjarnan á mörkum hönnunar og myndlistar, þar sem hún kannar rýmið sem skapast við skörun sviðanna tveggja. Salóme hefur tekið þátt í sýningum hérlendis og erlendis, en sýningin Engill og fluga er fyrsta einkasýning hennar á opinberu listasafni.
Húmorinn í dramatíkinni
Heiðdís Hólm er myndlistakona sem vinnur með margs konar miðla, þar á meðal málverk, teikningu og gjörninga. Útgangspunktur verka hennar er oft persónulegar upplifanir og minningar sem verða hráefni ferlisins, sem sveiflast á milli léttúðugrar ýkju, myrkrar sjálfsskoðunar og sköpunar skáldaðra frásagna. Á sýningunni leitar hún að húmornum í dramatíkinni eða dramatíkinni í húmornum og ójafnvæginu sem þar ríkir. Verkin endurspegla margbreytileika mannlegs ástands, áhrif manns á náttúru og afleiðingar þeirra áhrifa.
Heiðdís Hólm útskrifaðist af fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri 2016 og er með PgDip í myndlist frá Glasgow School of Art 2020. Þetta er fyrsta einkasýning hennar opinberu listasafni, en hún hefur haldið og tekið þátt í ýmsum einka- og samsýningum og hátíðum á Íslandi og í Evrópu. Hún er búsett á Seyðisfirði og starfar hjá LungA skólanum.